Gefur út plötur á tíu ára fresti
Undanfarið ár hefur tónlistarmaðurinn Bjarni Ómar spilað reglulega fyrir gesti á Barion og getið sér gott orð fyrir vandaðan tónlistarfluting. Hann flutti í Mosfellsbæinn ásamt eiginkonu sinni Öldu Guðmundsdóttur fyrir rúmu ári en þau keyptu sér íbúð í einni nýbyggingunni í Bjarkarholtinu.
„Ég er fæddur á Akureyri en ólst upp á Raufarhöfn frá fimm ára aldri,“ segir Bjarni Ómar sem starfar sem sérfræðingur á kjarasviði Sambands íslenskra sveitarfélaga.
„Samhliða aðalstarfi hef ég alltaf fengist við tónlist og tónlistarflutning. Ég hef komið fram sem söngvari og gítarleikari í rúm 30 ár við dansleikja- og tónleikahald víðsvegar um landið og þá lengst af í hljómsveitum með vinum mínum og félögum frá Raufarhöfn.“
Hver eru helstu tónlistarverkefnin í dag?
„Núna er ég söngvari og gítarleikari í hljómsveitunum Kokkteil frá Raufarhöfn og Sífrera sem báðar eru svona tilfallandi ballbönd og svo er það Nostal sem er virkasta bandið en við æfum reglulega einu sinni í viku allan ársins hring nema yfir heitasta sumartímann.
Nostal spilar á tónleikum nokkrum sinnum á ári og æfir og spilar bæði frumsamið efni en tekur líka fyrir einstaka tónlistarmenn eða hljómsveitir. T.d. spiluðum við á Barion í nóvember þar sem við fluttum lög hljómsveitanna Uriah Heep, Deep Purple og Rainbow við góðar undirtektir.
Svo er ég í skemmtilegu verkefni í Borgarleikhúsinu þessa dagana þar sem ég tek þátt í sýningunni Níu líf. Kem þar inn í miðja sýningu og læt ljós mitt skína.
Ég hef reyndar alltaf gert í því að flytja lög Bubba og hef um nokkurra ára skeið verið með efnisskrá sem ég kalla „Í hlutverki Bubba“ en það varð til löngu áður en ég ákvað að að láta reyna á að komast inn í Níu líf.“
Þú ert þá að semja eigin tónlist og gefa út plötur?
„Já, ég ég setti mér það markmið fyrir rúmum 30 árum að gefa út hljómplötu með eigin efni á a.m.k. tíu ára fresti. Fyrsta sólóplata mín, Annað líf, 12 laga plata kom út árið 1998, Fyrirheit kom út árið 2008 en á henni eru 12 melódísk og róleg popplög sem samin voru yfir stutt tímabil árin 2007-2008. Árið 2018 kom svo út nýjasta platan Enginn vafi en á henni eru 13 lög.
Fyrst og fremst er ég að gefa út plötur fyrir sjálfan mig en auðvitað vonar maður alltaf að aðrir njóti tónlistarinnar. Það hefur alveg gengið eftir og plöturnar fengið ágæta dóma og þokkalega spilun á tónlistarveitum.“
Hvert er viðfangsefni nýjustu plötunnar?
„Ég er að gera upp tímabil þar sem ég gekk í gegnum veikindi, m.a. krabbamein, erfið samskipti, missi og skilnað en líka nýtt upphaf á gömlum grunni með viljann og bjartsýnina að vopni.
Platan er býsna persónuleg, of persónuleg finnst sumum, því lagasmíðarnar og textarnir hafa sprottið upp úr þessum jarðvegi erfiðrar lífsreynslu. Sú reynsla fékk mig til að takast á við lífið og tilveruna með nýju og jákvæðu hugarfari. Nú nálgast ég lífið á hamingjuríkari hátt og er svo ótrúlega heppinn að hafa tekið upp sambúð með Öldu minni aftur og gifst henni í þetta skiptið og auðvitað flutt í Mosó.“
Og hvað er svo fram undan?
„Ég er að hefja upptökur á fjórðu sólóplötunni sem kemur vonandi út ekki síðar en á árinu 2023. Á plötunni verða meðal annars þrjú lög sem ég samdi fyrir skírnir barnabarnana svona út frá afahlutverkinu.
Nokkur kvöld eru svo bókuð á Barion fram að sumarbyrjun. Fyrst er að nefna að ég flyt Bubba prógrammið „Í hlutverki Bubba“ laugardaginn 26. febrúar. Laugardaginn 19. mars, og um páskana, laugardaginn 16. apríl held ég uppi stuðinu á Barion með blandaðri tónlist úr öllum áttum. Nostal endurtekur svo Uriha Heep og Rainbow efnið á Barion föstudaginn 1. apríl og kemur svo aftur með rísandi sól þann 28. maí og spilar lög frá hljómsveitum Bubba.
Vona ég að Mosfellingar og nærsveitungar láti sjá sig á þessum kvöldum því ég lofa fyrst og fremst skemmtilegri kvöldstund.“
Fyrir þá sem vilja kynna sér tónlist Bjarna Ómars geta t.d. gert það á Facebook, Spotify og Youtube.