Leiguíbúðir í Mosfellsbæ
Eitt af meginverkefnum sveitafélaga eru skipulagsmál. Á vettvangi sveitarstjórnarmála er oft rætt af miklum þunga um mikilvægi þess að skipulagsvaldið sé hjá sveitafélögunum til þess að undirstrika sjálfstæði þeirra við að móta samfélagið eftir vilja þeirra sem það byggja. Samt veltum við skipulagsmálum sjaldnast fyrir okkur nema kannski þegar kemur að því að gera eigi breytingar í okkar næsta umhverfi.
Einn veigamikill þáttur í skipulagi er að móta umhverfið þannig að það stuðli að fjölbreyttu og mannvænu umhverfi. Ein leið að því markmiði er að góð blöndun sé í hverfum með tilliti til aldurs og efnahags þeirra sem þar búa. Þetta getum við gert með því að skipuleggja mismunandi húsagerðir á nýjum byggingarreitum og að bjóða upp á mismunandi búsetuform sem henta mismunandi hópum.
Hamraborgarreitur
Nú er í skipulagsferli svokallaður Hamraborgarreitur sem afmarkast af Langatanga, Bogatanga og bensínstöð Olís. Í þeim tillögum sem liggja fyrir er gert ráð fyrir blandaðri byggð af einbýlishúsum, raðhúsum og fjölbýlishúsum.
Umræddur byggingarreitur er gæddur mörgum kostum m.a. hvað varðar staðsetningu þar sem öll helsta þjónusta og verslun er í göngufæri og stutt er í góðar samgöngur, hver sem ferðamátinn er. Einnig mun fyrirhuguð Borgarlína liggja nálægt skipulagsreitnum. Mikill skortur hefur verið á ódýru og öruggu leiguhúsnæði hér í bæ eins og víðar á landinu fyrir tekjulága einstaklinga og fjölskyldur á vinnumarkaði.
Bjarg íbúðafélag
Í kosningastefnu Samfylkingarinnar fyrir kosningar 2018 lagði flokkurinn áherslu á að samstarf yrði tekið upp við óhagnaðardrifin leigufélög um uppbyggingu leiguíbúða.
Í samræmi við þá áherslu flokksins lagði undirritaður fram tillögu í skipulagsnefnd um að bæjaryfirvöld settu sig í samband við Bjarg íbúðafélag og ræddu hvort hér væri ekki á ferðinni vænlegur kostur til að byggja fjölbýli á þeirra vegum þar sem þeir kostir sem ég hef tiltekið falla mjög vel að hugmyndum félagsins.
Skipulagsnefnd samþykkti einróma að vísa tillögunni til bæjarráðs til skoðunar. Bæjarráð samþykkti að vísa tillögunni til bæjarstjóra til afgreiðslu í tengslum við þau samskipti sem nú eiga sér stað á milli Mosfellsbæjar og Bjargs íbúðafélags varðandi mögulega uppbyggingu í Mosfellsbæ.
Vonandi veit það á gott og áður en langt um líður verði hafist handa við uppbyggingu á góðu og öruggu leiguhúsnæði á vegum Bjargs íbúðafélags fyrir tekjulága íbúa í Mosfellsbæ.
Ólafur Ingi Óskarsson,
áheyrnarfulltrúi S-lista í skipulagsnefnd.