Brian Clough
Brian Clough er einn af áhugaverðustu knattspyrnustjórum sögunnar. Hann stýrði Hartlepool, Derby, Brighton og Leeds (í nokkra daga) áður en hann tók við Nottingham Forest. Hann tók Forest upp í efstu deild á Englandi árið 1997, vann efstu deild með liðinu árið eftir og gerði liðið að Evrópumeisturum meistaraliða (nú Champions League) tvö ár í röð.
Clough var markaskorari sem leikmaður, skoraði 251 mörk í 274 leikjum með Middlesbrough og Sunderland. Hann hefur haft mikil áhrif á knattspyrnustjóra nútímans og er og verður alltaf goðsögn í borg Hróa Hattar.
Hann var maður einfaldleikans og náði árangri með því hugarfari. „Ég var aldrei hræddur, líkamlega. Starfslýsingin mín var einföld og skýr, að koma boltanum í netið. Það var mitt verkefni og ég leyfði engu og engum að afvegaleiða mig frá þeim tilgangi.“
Skilaboð hans til leikmanna þegar hann var orðinn knattspyrnustjóri voru skýr. Spilið boltanum á jörðinni og komið honum í netið. Hann lagði mikla áherslu á að hver og einn leikmaður ætti að einbeita sér að því sem hann væri góður í, ekki velta sér endalaust upp úr veikleikum sínum og leggja mikla vinnu í að bæta sig þar.
Ég hugsa stundum til Brian Clough þegar lífið virðist flókið og þræðir þess margir og út um allt. Sé hann fyrir mér í grænu peysunni sinni á hliðarlínunni á City Ground, sallarólegan og sjálfsöruggan, vitandi að einfaldleikinn er bestur.
Við þurfum ekki að geta allt eða vita allt. Okkur líður best og náum mestum árangri þegar við útilokum áreiti og einbeitum okkur að því sem við erum góð í og höfum gaman af. Hvort sem það er að skora mörk, stýra teymum til sigra eða eitthvað allt annað.
Í hverju er þú góð/ur? Hvar nýtur þú þín best? Hvernig geturðu gert meira af því og minna af öllu hinu?
Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 3. febrúar 2022