Fyrsti Mosfellingur ársins
Fyrsti Mosfellingur ársins 2022 er drengur sem fæddist í Björkinni þann 6. janúar kl. 00:33, fimm dögum fyrir settan dag. Hann var 14 merkur og 51 cm og foreldrar hans eru Hrafnhildur Eva Guðmundsdóttir og Hjalti Andrés Sigurbjörnsson.
„Fæðingin gekk eins og í sögu og allt ferlið tók tæpar 6 klukkustundir. Hann fæddist í vatni og synti beint í fangið á pabba sínum sem sat við laugina að styðja mömmuna,“ segja foreldrarnir.
Drengurinn er annað barn foreldranna en fyrir eiga þau dótturina Heiðu Margréti Hjaltadóttur sem verður fjögurra ára þann 15. febrúar 2022.
Í fjölskylduvænu umhverfi í nálægð við náttúruna
„Við hlökkum til að ala hann ásamt systur hans upp í Mosfellsbæ. Við fluttum í Tröllateig fyrir rúmu ári því okkur langaði til þess að búa í fjölskylduvænu samfélagi í nágrenni við náttúruna og fjöllin en ég, Hjalti Andrés, er frá Kiðafelli í Kjós og Hrafnhildur Eva ólst upp í Grafarvogi.
Hér er notalegt að búa, við höfum gott útsýni yfir Esjuna og mikið af gönguleiðum þar sem við erum líka með íslenska fjárhundinn hana Heklu og göngum mikið,“ segir Hjalti Andrés.