Útilistaverk reist á Kjarnatorgi
Menningar- og nýsköpunarnefnd hefur samþykkt að útilistaverk Elísabetar Hugrúnar Georgsdóttur arkitekts verði reist á Kjarnatorgi.
Tillaga hennar hlaut viðurkenningu dómnefndar í hugmyndasamkeppni um aðkomutákn sem Mosfellsbær efndi til árið 2018. Verkið er nú í hönnun og markmiðið er að reisa verkið í mars á næsta ári.
Meginmarkmið menningarstefnu Mosfellsbæjar eru að móta áherslur í menningarmálum, efla og styðja við fjölbreytta menningu í bænum, auka aðgengi íbúa að menningu og stuðla að virkri þátttöku þeirra. Ein af þeim aðgerðum sem leiða af stefnunni er að auka vægi listar í opinberu rými með því að fjölga umhverfislistaverkum á lykilsvæðum í bænum. Með framkvæmd þessa verkefnis menningar- og nýsköpunarnefndar fjölgar umhverfislistaverkum í bænum um eitt.
Meðfylgjandi er tölvugerð mynd sem sýnir afstöðu verksins í nýja miðbænum.