Hilmar Stefánsson sækist eftir 6. sæti

Hilmar Stefánsson býður sig fram í 6. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ sem fram fer 5. febrúar 2022. Hilmar starfar sem framkvæmdastjóri MHG Verslunar.

„Ég flutti í Mosfellsbæinn 1998 til að spila handbolta með Aftureldingu. Upphaflega átti það að vera eitt ár en hér líður mér vel og árin orðin 23. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á bæjarmálunum og því sem fram fer í sveitarfélaginu. Ég sat í skipulagsnefnd Mosfellsbæjar árin 2012-2014 og í menningarmálanefnd 2006-2010. Þá var ég formaður Viljans, félags ungra sjálfstæðismanna í Mosfellsbæ 2006-2009.

Síðast en ekki síst er ég formaður Fálkanna sem er virðulegur lífsstílsklúbbur hér í bæ og brýni raust mína með Karlakór Kjalnesinga. Ég óska eftir stuðningi í 6. sætið og hlakka til að takast á við þær áskoranir sem við Mosfellingar stöndum frammi fyrir á komandi árum.