Verkefnið Járnfólkið – Rótarýhreyfingin
Fyrir nokkrum árum hvatti viðskiptafélagi minn mig til að mæta á fund hjá Rótarýklúbbnum Þinghól sem starfræktur er í Kópavogi.
Frá þeim tíma hef ég verið meðlimur í Rótarýhreyfingunni og tek heilshugar undir orð frú Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, sem líkti Rótarý við „opinn háskóla“. Samhliða frábærum fyrirlestrum um allt milli himins og jarðar stuðlar Rótarý á Íslandi að fræðslu og samfélagsverkefnum sem koma öllum til góða.
Eftir að hafa séð hve öflug þessi hreyfing er, hve virkir og velviljaðir meðlimir hennar eru við að bæta samfélag sitt og koma góðu til leiðar fann ég mig innan Rótarý. Fyrir 2 árum lagði ég fyrir klúbbfélaga mína hugmynd að samfélagsverkefni. Hafði ég þá greinst með erfðasjúkdóm sem nefnist járnofhleðsla (e. Hemochromatosis) sem í eðli sínu er auðvelt að greina og meðhöndla en getur valdið miklum skaða og leitt til ótímabærra dauðsfalla sé hann ekki meðhöndlaður.
Til að greina sjúkdóminn þarf að fara í blóðpróf á næstu heilsugæslustöð og meðhöndlunin felst m.a. í því að tappa blóði reglulega af viðkomandi þar til að hlutfall járns í blóði er orðið viðunandi að mati læknis. Ef ekki er brugðist við getur þessi sjúkdómur valdið lifrarbólgu, skorpulifur og hugsanlega lifrarkrabbameini, sykursýki, skjaldkirtilssjúkdómum, getuleysi, ófrjósemi, vöðva- og liðverkjum, þunglyndi, Alzheimer, Parkinsons og aukið á gigtareinkenni.
Ég var beðinn um að halda fyrirlestra um sjúkdóminn og að loknum þeim var samþykkt samhljóða að taka upp verkefnið og vinna bækling sem dreift yrði um allt land. Verkefnahópur var settur á laggirnar og markmiðið sett um að auka vitundarvakningu á meðal almennings. Síðar kom í ljós að fjöldi félaga minna þekktu einstaklinga með þennan sjúkdóm, ættingja eða vini. Nokkrir félagar mínir í klúbbnum eru með sjúkdóminn og einn félagi minn greindist nýlega. Fyrir ári var sótt um styrk fyrir verkefnið hjá Verkefnasjóði Rótarý á Íslandi og hlaut verkefnið hæsta styrkinn sem í boði var. Vil ég þakka stjórn sjóðsins innilega fyrir þennan velvilja sem lýsir vel hugsjónum Rótarý.
Á næstu vikum munum við í Rótarý dreifa bæklingi sem ber yfirskriftina ,,Járnofhleðsla, hvað er það?“ Með þessari vitundarvakningu er ætlunin að hvetja fólk á öllum aldri, sem finnur til einkenna, að leita til síns heimilislæknis og óska eftir blóðprófi svo skera megi úr varðandi hlutfalls járns í blóði. Rétt er að benda fólki, sem á ættingja með þennan erfðasjúkdóm, á að fara í blóðpróf og fá ráðgjöf hjá sínum heimilislækni.
Við í Rótarýklúbbnum Þinghól viljum með þessu vekja fólk til vitundar en samkvæmt heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna nr. 3.4 segir : „Eigi síðar en árið 2030 hafi ótímabærum dauðsföllum af völdum annarra sjúkdóma en smitsjúkdóma verið fækkað um þriðjung með fyrirbyggjandi aðgerðum og meðferð og stuðlað að geðheilbrigði og vellíðan.“ Með þessu vil ég upplýsa þig og vekja athygli þína á þessu verkefni Rótarý.
Fjórpróf Rótarý: Er það satt og rétt? Er það drengilegt? Eykur það velvild og vinarhug? Er það öllum til góðs?
Gleðileg jól og farsælt komandi ár.
Sveinn Óskar Sigurðsson
Verkefnastjóri verkefnisins Járnfólkið hjá Rótarý og bæjarfulltrúi í Mosfellsbæ