Vetrarsólhvörf
Þessi dægrin liggur sól lægst á lofti, skammdegið er mikið en um leið er eitt fullvíst: „Dagarnir lengjast og dimman flýr í sjó“ svo vitnað sé í þekkt vorkvæði. Orðið „sólhvörf“ getur bæði merkt þau tímamót þegar daginn tekur að lengja og stytta, hvorttveggja minnir okkur á hverfulleika lífsins og hringrás tímans. Jól og áramót eru einmitt sá tími þegar við lítum í senn til ársins sem er á förum og þess nýja sem mætir okkur.
Árið sem kveður brátt hefur verið einstakt fyrir margra hluta sakir, heimsfaraldur geisar enn og aldrei mikilvægara en núna að gæta hvert að öðru og okkur sjálfum. Íslenskt samfélag hefur borið gæfu til að bregðast skjótt við breyttum sviðsmyndum sem blasa sífellt við okkur. Oft þarf að taka íþyngjandi og umdeildar ákvarðanir fyrir ýmsar starfsstéttir og almenna borgara sem hafa sýnt mikla þrautseigju og sveigjanleika í baráttunni við hinn skæða vágest.
Á þessu miklu óvissutímum hefur Mosfellsbær lagt allt kapp á að skila hallalausum rekstri og um leið að verja grunnþjónustuna við íbúa. Sá mannauður sem Mosfellsbær býr yfir hefur skipt sköpum við þessar óvenjulegu aðstæður og starfsfólk bæjarins hefur þurft að endurskipuleggja starfshætti sína.
Náttúruöflin létu líka að sér kveða á árinu 2021 og „hin rámu regindjúp“ létu rækilega í sér heyra. Nú er gosinu í Geldingadölum „formlega“ lokið en um leið vitum við að jörðin okkar sefur aldrei – aldrei alveg – og minnir okkur á að það er skylda okkar allra að hlúa betur að móður Jörð, já miklu betur.
Kæru Mosfellingar. Vetrarsólhvörf eru nýgengin hjá, hækkandi sól blasir við. Við viljum þakka bæjarbúum góð samskipti á árinu sem kveður senn og óskum ykkur öllum gleðilegra friðarjóla og farsældar á nýju ári.
Bjarki Bjarnason, bæjarfulltrúi V-lista.
Bryndís Brynjarsdóttir, varabæjarfulltrúi V-lista.