Konur eru líka öflugar
Undirbúningur sjálfstæðismanna til sveitastjórnarkosninga í vor eru nú í fullum gangi. Margir ólíkir einstaklingar með ólíkar skoðanir gefa kost á sér sem mér finnst mjög jákvætt því það leiðir til fjölbreyttra hugmynda um hvernig hægt sé að gera Mosfellsbæ að betri bæ til að búa í, þótt gott sé að búa þar í dag og óvíða betra.
Ég hef alltaf haft áhuga á bæjarmálum, hef í fjögur ár verið varaformaður Umhverfisnefndar fyrir Mosfellsbæ á þessu kjörtímabil, þessi tími hefur verið lærdómsríkur og bara eflt minn áhuga á að taka áframhaldandi þátt með því að gefa aftur kost á mér fyrir Sjálfstæðisflokkinn
Ég hélt að ég hefði ekki nægjanlega reynslu eða þekkingu að starfa í bæjarmálum en það lærist hvernig stjórnsýslan virkar og þau sem reyndari eru hafa verið mjög hjálpsöm. Það er nefnilega með okkur konurnar að við erum oft sjálfar duglegastar að draga úr okkur kjarkinn og höldum að við séum ekki nægilega hæfar.
Við þurfum ekki að kunna allt eða hafa þekkingu á öllu til að taka áskorunum heldur lærum við af öðrum reynsluboltum sem hafa starfað á þessum vettvangi, mér finnst að við konur ættum að vera duglegri að ögra okkur sjálfum og sýna hver annari meiri stuðning í daglegu lífi, hvort sem það er innan veggja heimilisins, í vinnu eða komandi kosningum.
Við getum gert bæinn okkar enn betri, bæ sem fólk vill búa í til frambúðar og það er svo sannarlega gott að búa í Mosfellsbæ. Hér er frábært að ala upp börnin sín og einnig fyrir börn að alast upp, fullyrðir dreifbýlistúttan ég, Kristín Ýr, sem naut þess að alast upp í litlu þorpi út á landi. Mér finnst Mosfellsbær einmitt vera eins og lítill bær út á landi, stutt er í náttúruna, frábærar gönguleiðir, frábært íþróttastarf fyrir alla og nánd við nágrannana. Nú hvet ég allar konur til að velta þessum hlutum fyrir sér, skrá sig í flokkinn og flykkjast á kjörstað og sýna í verki að við konur getum líka gert gagn, við sjáum oft hlutina í öðru ljósi, við erum kröftugar, við erum sannar, þó svo að ég geri ekki lítið úr karlmönnunum sem starfa í bæjarmálunum hér.
Það er mín skoðun að konur ættu að fá meira vægi í stjórnmálum almennt. Ég tók ákvörðun fyrir nokkuð mörgum árum að ég ætla aldrei að hallmæla öðrum konum, ég ætla að ögra sjálfri mér, hafa þor til að taka ákvarðanir, þor til framkvæmda, kynnast nýju fólki og taka fólki eins og það er og mynda mér skoðanir um fólk þegar ég hef kynnst því en halda samt sem áður áfram að vera ég sjálf.
Ég er nefnilega mamma, eiginkona, vinkona og mig langar að geta gert gagn í bæjarmálum hér í Mosfellsbæ. Þess vegna býð ég mig fram í þriðja sæti fyrir Sjálfstæðisflokkinn þann 5. febrúar næstkomandi.
Kristín Ýr Pálmarsdóttir