Jólakveðja

Anna Sigríður Guðnadóttir

Bæjarstjórn er nú komin í jólafrí og lítið að frétta úr bæjarpólitíkinni. Búið að afgreiða fjárhagsáætlun og komin tími á jólaundirbúning og jólagleði.
Sveitarstjórnarkosningar verða haldnar í maí og ef að líkum lætur færist fjör og líf í bæjarmálin og stjórnmálaumræðu þegar kemur fram á nýja árið. Það eru mörg verkefnin sem sinna þarf í sveitarstjórn og margs konar stefnumótun sem þarf að fara fram eða endurskoða.
Skólamálin eru og eiga alltaf að vera efst á baugi enda leggur það starf sem þar er unnið grunninn að framtíð og farsæld unga fólksins okkar. Getur við gert betur í skólamálum? Já, það teljum við. Við þurfum að leggja aukna áherslu á að búa vel að skólunum okkar og gera allt sem í okkar valdi stendur til að efla það faglega starf sem þar er unnið. Getum við gert betur í fjölskyldumálum? Já, það teljum sannarlega. Við þurfum að búa betur að þeim sem eiga undir högg að sækja, við þurfum að fjölga félagslegum íbúðum til að standast samanburð við nágrannasveitarfélög okkar og við þurfum að sinna betur eldri borgurum. Getum við gert betur í skipulagsmálum? Já, það teljum við. Við verðum að gæta þess að jafnvægi haldist í uppbyggingu bæjarins okkar, að ímyndin um sveit í bæ glatist ekki. Getum við gert betur í umhverfismálum? Já, sannarlega getum við það, t.d. með því að leggja áherslu á loftslagsmál sem eru mikilvægustu mál framtíðarinnar. Getum við gert betur í íþrótta- og tómstundamálum, menningarmálum, lýðræðis- og mannréttindamálum? Já, við getum það.

Ólafur Ingi Óskarsson

Við eigum að gera betur í öllum þessum málaflokkum. Efla faglegt starf nefnda bæjarins og efla tækifæri bæjarbúa til þátttöku í stefnumótun og samtali um framþróun í bæjarmálunum. Alla þessa þætti þarf að ræða í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga.
En núna er tími til að njóta samveru og helgi jólanna. Vonandi auðnast okkur öllum að halda gleðileg jól með fjölskyldu og vinum óáreitt af veiruskömminni. Bestu óskir um gleðiríka jólahátíð.

Anna Sigríður Guðnadóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar
Ólafur Ingi Óskarsson, varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar.