Lék áhættuatriði fyrir James Bond

lexi

Alexander eða Lexi eins og hann er ávallt kallaður tók á móti mér á fallegu heimili sínu í Mosfellsdalnum. Á hlaðinu mátti sjá bíla, fjórhjól, vélsleða og mótorhjól svo eitthvað sé nefnt svo það fer ekki framhjá neinum hver áhugamálin eru á þessum bænum.
Það þarf ekki að vera lengi í návist Lexa til að sjá að þar er mikill ofurhugi á ferð, hann er hjálpsamur með eindæmum, hugsar stórt og er maður framkvæmda.

Alexander er fæddur í Reykjavík 25. júní 1975. Foreldrar hans eru þau Rósa Vestfjörð Guðmundsdóttir forstjóri og Kári Þórðarson prentari. Alexander á tvo bræður, þá Þórð og Ólaf.
„Foreldrar mínir fluttu með okkur bræður á Akureyri árið 1977. Þegar ég lít til baka til æskuáranna þá kemur snjórinn sterkur inn, útiveran í Hlíðarfjalli og svo voru líka góðar stundir þegar maður gat hoppað fram af húsþakinu heima beint út í skafl.“

Var sá eini sem fékk aukablað
„Ég gekk í Glerárskóla, umhverfið þar í kring var spennandi, gil og klettar og tilvalið að gleyma sér þarna milli tíma. Ég fann mig nefnilega ekki í félagsskap í frímínútum, ég æfði ekki fótbolta og fékk því ekki að vera með nema vera valinn seinastur í liðið. Mér leið oft eins og ég væri eitthvað öðruvísi en aðrir og sótti í athygli á neikvæðan máta, var samt aldrei vondur við neinn en uppátækjasamur.
Það var eins með námið, mig skorti einbeitingu. Ég man að í 2. bekk þá fékk maður blað sem var stimplað með stjörnu ef maður var óþekkur. Ég var sá eini sem fékk aukablað því hitt dugði ekki til en ég druslaðist einhvern veginn í gegnum þetta.“

Sökkti mér í flórinn
„Frá sjö ára aldri fór ég í sveit á sumrin, var aldrei sendur á sama staðinn tvisvar og fyrir því eru góðar ástæður, ég þótti erfiður og uppátækjasamur. Ég smurði kettlinga með júgursmyrsli, sofnaði í glerull, slóst við selsunga, sökkti mér í flórinn, hnuplaði skotum og teikaði beljur svo fátt eitt sé nefnt,“ segir Lexi og hlær.
„Í seinni tíð fór ég sjálfviljugur í sveit og stóð ég mig vel á traktorum og hinum ýmsu græjum.“

Fór á snjósleða í skólann
„15 ára gamall tók ég skellinöðrupróf, eingöngu til að mega keyra snjósleða. Ég keypti mér Polaris sleða fyrir fermingarpeningana og eftir það fékk ég sleðadellu. Ég fór stundum á sleðanum í skólann ef vel viðraði og svo fór ég að prófa að taka þátt í keppnum.
Eftir grunnskóla fór ég í Verkmenntaskólann. Áhuginn á náminu dvínaði fljótlega og þegar ég var búin að falla ­þrisvar sinnum í bókfærslu þá hætti ég.“

Fór til Lundúna í nám
„Ég hóf störf í fyrirtæki foreldra minna, Ásprent, en þá prentsmiðju keyptu foreldrar mínir árið 1978. Seinna stofnuðu þau Ás­útgáfuna sem gefur út Rauðu Seríuna. Bræður mínir unnu líka í fyrirtækinu og við nutum þess að starfa öll saman.
Nítján ára fór ég í nám til Lundúna í prent­stjórnun. Það var virkilega gaman í því námi, þar kynntist ég sálfræði og stjórnun sem hefur hjálpað mér vel.“

Engin eftirsjá
Eftir heimkomu fór Lexi á fullt í snjósleðakeppnir. Hann varð fjórum sinnum Íslandsmeistari í snjókrossi og keppti á EM í Svíþjóð og Finnlandi, HM í Bandaríkjunum og í X-Games.
Ég spyr hann hvort hann hafi aldrei slasast? „Jú, það var allt sett í þetta, slitin liðbönd í ökkla, brotinn leggur, rifbein og bak, marin þind og ég fór líka úr mjaðmarlið en þetta var allt þess virði og engin eftirsjá.“

Rosaleg upplifun
Stærsta ævintýri Lexa til þessa var þegar hann lék áhættuatriði í James Bond myndinni Tomorrow Never Dies. „Ég fékk fregnir af því að það ætti að taka þessa mynd upp hér á landi og í henni ættu að vera vélsleðaatriði. Ég lét útbúa myndbrot úr þeim keppnum sem ég hafði tekið þátt í og gerði svo framleiðsluteyminu vart við mig. Daginn eftir var mér boðið að koma og starfa við gerð myndarinnar og ég var með þeim í 10 daga. Þetta var rosaleg upplifun.”

Ég varð hugfanginn af henni
„Ég kynntist konunni minni, Árnýju Elvu, á Akureyri. Ég varð hugfanginn af henni, hún bauð mér í mat eitt kvöldið og ég þáði boðið. Ég var þá nýbúinn að vinna keppni á Ólafsfirði og átti að vera að fagna þar þetta kvöld en þangað fór ég aldrei. Við höfum verið saman síðan.
Við eigum þrjú börn, Ásgrím Örn fæddan 2005, Bergvin Snæ fæddan 2006 og Bergrúnu Fönn fædda 2008.“

Framtíðin í lausu lofti
„Árið 2004 var eftirminnilegt ár fyrir okkur stórfjölskylduna. Við seldum hluta af Ásprenti til manna á Akureyri sem ætluðu að byggja upp með okkur smiðjuna. Það fór ekki betur en svo að þeir reyndust tvöfaldir í roðinu og boluðu okkur út úr fyrirtækinu eftir nær 30 ára sögu þess. Við tók ömurlegur tími þar sem við höfðum ekkert fyrir stafni og framtíðin var í lausu lofti.
Fjölskyldan vildi halda áfram að starfa saman. Við fréttum af fyrirtæki í Reykjavík til sölu, Papco, slógum til og keyptum reksturinn. Til að byrja með flugum við suður á mánudögum og heim aftur á föstudögum en síðan fluttum við öll suður.“

Búið að vera mikið ævintýri
„Við Árný Elva keyptum okkur 10.000 m2 lóð í Mosfellsdalnum og fluttum inn forsteypt einingahús frá Kína. Það er búið að vera mikið ævintýri að byggja hérna undanfarin ár með aðstoð ættingja og vina. Við fluttum svo inn í febrúar 2013, héldum innflutningsveislu og giftum okkur í leiðinni. Ég er búinn að útbúa reiðhjólastökkpallsbraut hér á lóðinni fyrir börnin og svo er einnig lítil motorcrossbraut í smíðum.“

Lágmarkskrafa að það sé til aðstaða
Undanfarin ár hefur Lexi haldið allskonar viðburði eins og Lex Games sem er einskonar jaðaríþróttaveisla. Hann hefur einnig haldið BMX og hjólabrettakeppnir. Hann stofnaði jaðaríþróttfélag í Reykjavík, Hasar íþróttafélag á Akureyri og hefur tekið þátt í uppbyggingu á Brettafélagi Hafnarfjarðar.
„Mér finnst lágmarkskrafa að það sé til aðstaða fyrir allar íþróttir sem eru stundaðar. Það er gríðarlega stór hópur af börnum sem ekki falla inn í hóp­íþróttir en finna sig í jaðaríþróttum. Ég hef tekið að mér að láta hanna og smíða palla bæði við Lágafellsskóla, Varmárskóla, við áhaldahúsið og á Ingólfstorgi í Reykjavík.
Ég er núna að vinna í því að byggja upp stóra jaðarmiðstöð í Elliðaárdal og þar verður ýmis konar aðstaða í boði, veggjaklifur, svampgryfjur, BMX, hjólabretti, snjóbretti, skíði, línuskautar o.fl.
Ég get lofað því að þetta á eftir að verða eitt vinsælasta og skemmtilegasta hús landsins,“ segir Lexi er við kveðjumst.

Myndir og texti: Ruth Örnólfs