Nokkur orð um fjárhagsáætlun og kaffisopa
Fjárhagslegt umhverfi sveitarfélaganna hefur einkennst af mikilli óvissu undanfarin 2 ár af orsökum sem við öll þekkjum.
Á covid-tímum varð reksturinn vandasamari og tekjur lækkuðu. En eins og fyrirliggjandi fjárhagsáætlun 2022 sýnir þá er fjárhagur sveitarfélagsins að komast á betra ról fyrr en menn töldu að væri mögulegt í upphafi faraldurs, tekjufallið er að skila sér hraðar til baka og tekjur að nálgast það sem var fyrir faraldur. Mosfellingum heldur áfram að fjölga og þar með skila sér auknar tekjur í kassann. En fjölgun íbúa fylgir líka aukin þjónustuþörf. Auðvitað er ýmislegt gott að finna í fyrirliggjandi fjárhagsáætlun sem allir flokkar í bæjarstjórn geta skrifað undir. En fjárhagsáætlunin er ekki unnin í samstarfi og þ.a.l. hafa flokkar í minnihluta ekki tækifæri til að koma sínum áhersluatriðum að.
Tíu dropa útsvarslækkun til heimabrúks
Áherslur í fjárhagsáætlun endurspegla pólitíska afstöðu þeirra stjórnmálaflokka sem hana leggja fram, þ.e. Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks. Lækkun útsvarsprósentu um 0,04 prósentustig frá leyfilegu hámarki er pólitísk aðgerð til að tikka í box skattalækkana hjá Sjálfstæðisflokknum og VG töltir með. Eins og við Samfylkingarfólk höfum margoft bent á skiptir þessi lækkun í raun engu máli fyrir einstaka útsvarsgreiðendur. Þannig heldur útsvarsgreiðandi sem er með 500.000 krónur á mánuði eftir aukalega 200 krónum sem duga fyrir kaffibolla á bensínstöðinni. Bæjarbúinn með 2.000.000 á mánuði getur farið í bakaríið og fengið sér kaffi og með því. Þetta smellpassar við hugmyndafræði sjálfstæðismanna.
Meirihlutinn ákveður nú sjötta árið í röð að innheimta ekki fullt útsvar. Árið 2022 þýðir það 24 milljónum minna í kassann. Lauslega reiknað eru það ríflega 100 milljónir sem meirihlutinn hefur afþakkað inn í rekstur bæjarins á þessum árum. Í ljósi þess að ábati einstakra útsvarsgreiðenda er lítill sem enginn telur Samfylkingin að í stækkandi sveitarfélagi hefði verið skynsamlegra og til ábata fyrir samfélagið í heild að nýta þessa fjármuni í brýn verkefni s.s. aukinn stuðning og sérfræðiþjónustu innan skólakerfisins, aukinn kraft í umhverfis- og loftslagsmálin eða til að auka stuðning við þau sem höllustum fæti standa í okkar samfélagi, svo einhver dæmi séu nefnd.
Sveitarfélögin í landinu halda því fram með réttu að ríkið hafi ekki látið fylgja nægilega fjármuni með flutningi verkefna frá ríkinu til sveitarfélaganna. Má þar nefna grunnskólann og málefni fatlaðs fólks. Reyndar hefur komið fram í umræðunni að 9 milljarða vanti inn í málflokk fatlaðs fólks frá ríkisvaldinu. Á það er bent að tekjumöguleikar sveitarfélaganna séu mun takmarkaðri en ríkisvaldsins enda geta sveitarfélög ekki ákveðið nýja skatta eins og ríkið. Þannig séu sveitarfélögin að nýta fjármuni sem ættu að fara í annað til að halda upp lögbundinni þjónustu í þessum málaflokkum. Á móti þessum rökum hafa heyrst, m.a. frá framámönnum í ríkisstjórn Sjálfstæðismanna, VG og Framsóknar, að það sé holur hljómur í kröfum sveitarfélaganna um aukin fjárframlög þegar sveitarfélögin fullnýti ekki útsvarsheimildina. Við tökum undir þá skoðun framámanna ríkisstjórnarinnar því þegar öllu er á botninn hvolft þá koma fjármunir til þessara mikilvægu samfélagsverkefna alltaf af sköttum borgaranna.
Lækkun útsvars um 0,04 prósentustig er sýndarmennska í heimabyggð sem flækir málin í samskiptum ríkis og sveitarfélaga.
Anna Sigríður Guðnadóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar
Ólafur Ingi Óskarsson, varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar