Sá elsti og virtasti
Kæru Mosfellingar. Nú hefur Framsóknarflokkurinn legið í dvala hér í bænum okkar svo árum skiptir sem er afar miður fyrir okkar bæjarfélag.
Það fer nefnilega ekkert á milli mála að grunngildi flokksins, sem skilað hafa þjóðinni þessum mikla árangri á landsvísu, hafa átt undir högg að sækja hér í Mosfellsbæ.
Þetta sést bersýnilega á morgnana þegar umferðarteppan er hvað mest, þar sem flest allir flykkjast í Reykjavík eða nærumhverfi til að sækja atvinnu. Erfitt hefur reynst fyrir ungt fólk að setjast hér að vegna skorts á húsnæði fyrir fyrstu kaupendur. Lítil fjölbreytni er í atvinnustarfsemi. Stórar ákvarðanir hafa verið teknar í tráss við vilja lykilaðila. Framtíðarsýn skortir í skipulagsmálum. Hér er einfaldlega tækifæri til að gera betur.
Við í unga armi Framsóknar fáum ekki betur séð en að rótgróin stefnumál elsta og virtasta flokksins eigi töluvert erindi hér, þ.e.a.s. skynsöm byggðastefna og bættar samgöngur, metnaðarfull atvinnusköpun og loks virkt samráð.
Til þess að stuðla að atvinnusköpun verða svo auðvitað að vera til staðar skilyrði svo einkaframtakið geti fært út kvíarnar, í þeim efnum eru uppi mörg tækifæri til að gera betur með ýmsum ívilnunum til að laða að fyrirtæki.
Framsóknarflokkurinn vann stórsigur í nýafstöðnum kosningum á landsvísu og við ætlum okkur að sjálfsögðu að fylgja fast á eftir í komandi sveitarstjórnarkosningum. Nú er undir okkur bæjarbúum komið að tryggja veru sáttasemjarans í miðjunni hér í Mosfellsbæ.
Kjartan Helgi Ólafsson og Leifur Ingi Eysteinsson.
Höfundar eru ungir Framsóknarmenn og stjórnarmenn í Framsóknarfélagi Mosfellsbæjar