Ádrepa
Mörgum hefur ofboðið grasslátturinn á vegum Mosfellsbæjar í sumar sem leið. Oft hefur kappið borið skynsemina ofurliði en nú virðist þessi sláttustefna hafa færst heldur betur í aukana. Verið var að þessu sinni að fram yfir lok september og jafnvel enn verið að slá þá þessar línur eru ritaðar. Það ætti að vera sjaldséð að blettir séu hafðir snöggslegnir að hausti.
Allir skynsamir garðeigendur hætta slætti um mánuði fyrr og leyfa grasinu að vaxa síðsumars og hafa grasblettina dálítið loðna yfir veturinn. Það kemur í veg fyrir kal og að mosi nái sér á strik.
Þessi grassláttarstefna bæjarfélagsins hlýtur að kosta verulega háar fjárhæðir sem mætti verja í annað þarflegra eins og að lagfæra göngustíginn sunnan við Varmá ofan við Dælustöðina. Það aðgerðarleysi er bæjaryfirvöldum vægast sagt til mjög mikils vansa.
Mosfellsbær er þekktur fyrir að vera mikill útivistarbær. Óvíða eru jafn margar skemmtilegar gönguleiðir og hér enda fjölbreytni mjög mikil. Vinsælar gönguleiðir eru á Úlfarsfell, Helgafell, Reykjaborg, Reykjarfjall, Mosfell og fleiri mosfellsk fjöll. Nýverið var bætt gönguleið við Bringur áleiðis að Helgufossi en betur má ef duga skal.
Mætti ekki verja sláttupeningnum fremur í að bæta stígakerfi innan bæjarmarkanna en hvarvetna eru verkefni? Ýmsar leiðir mætti skoða.
Hestafólkið í Mosfellsbæ þarf beitarhólf og slægjur og hafa hestar bæjarbúa verið fluttir jafnvel landshornanna á milli, í og úr sumarbeit. Einnig hefur heyskapur farið fram utan Mosfellsbæjar hestafólkinu til mikillar fyrirhafnar og kostnaðar. Víða mætti nýta slægjur bæjarins í þágu hestafólks. Ég fæ ekki skilið annað en að hafa mætti fyrirmyndar samstarf bæjaryfirvalda við Hestamannafélagið Hörð um þessi mál enda eru hestar bæði umhverfisvænni og hagkvæmari í rekstri en sláttuvélar.
Við þurfum að forgangshraða verklegum framkvæmdum. Víða hafa verið gerð mjög alvarleg mistök eins og við skipulag neðst í Súluhöfða þar sem betur hefði mátt vanda til undirbúnings verka. Meira tillit hefði mátt taka til þeirra húseigenda sem fá allt í einu hús örstutt frá sinni lóð, beint framan við stofugluggann sinn í stað góðs útsýnis yfir Leirvoginn og til Esjunnar. En það er efni í aðra grein.
Guðjón Jensson
arnartangi43@gmail.com