Stefndi á að koma Íslandi á kortið

Magne Kvam eigandi Icebike Adventures sameinaði þekkingu sína og fór að taka að sér hjólaleiðsögn um landið.

Icebike Adventures er lítið fjölskyldufyrirtæki sem stofnað var árið 2006 og er fyrsta fyrirtækið á Íslandi sem býður upp á margra daga fjallahjólaferðir á hálendinu. Stofnandinn, Magne Kvam hefur eytt síðustu 15 árum í að leita að og búa til hjólaleiðir um land allt.
Hann og hans starfsfólk hafa mikla ástríðu fyrir útivist og fjallahjólreiðum og leitast við að skapa einstök reiðhjólaævintýri fyrir viðskiptavini sína á fjarlægustu slóðum Íslands.

Magne Kvam er fæddur á Akureyri 13. júní 1975. Foreldrar hans eru þau Gígja Kjartansdóttir tónlistarkennari, organisti og stofnandi Urtasmiðjunnar og Roar Kvam tónlistarkennari og tónskáld. Magne á eina systur, Helgu Kvam f. 1972 sem starfar sem tónlistarkennari og tónskáld.

Rex var sannur vinur
„Ég er alinn upp á Svalbarðsströnd í Eyjafirði og það var frábært að alast þar upp, í sveitinni við fjörðinn. Maður var alltaf að bardúsa eitthvað, með veiðistöngina á reiðhjólinu eða smíðandi fleka úr vörubrettum. Á næsta bæ átti ég skyldfólk og hjá þeim var ég mikið á mínum æskuárum.
Ég átti hund sem hét Rex og hann fór með mér hvert sem ég fór og var sannur vinur. Hann varð síðan fyrir bíl og það var mjög vont fyrir ungan dreng.
Ég man vel eftir þeim degi þegar ég smíðaði mér boga og skaut ör í flugdreka drengs í sveitinni sem mér þótti ekki skemmtilegur með þeim afleiðingum að drekinn hrapaði til jarðar. Það var mikill víkingasigur sem ég er enn stoltur af,“ segir Magne og brosir.

Stundaði nám á alls kyns hljóðfæri
„Ég gekk í grunnskóla í sveitinni alveg upp í 6. bekk, þetta var lítill sveitarskóli sem var bara kósí og við vorum fjögur í mínum árgangi. Ég fór síðan í Glerárskóla á Akureyri og kynntist þar nýjum félögum og kláraði mína skólaskyldu þar. Á sumrin vann ég í unglingavinnunni, við garðslátt, girðingarvinnu og á trésmíðaverkstæði.
Á unglingsárunum ólst ég eiginlega upp í tónlistarskóla, stundaði þar nám á alls kyns hljóðfæri í klassísku tónlistarnámi. Hóp­íþróttir áttu ekki vel við mig og ekki mikið annað í boði þannig að ég hjólaði mikið sem barn og fann mig vel í því sporti.
Ég gekk líka í þungarokkshljómsveitir og brallaði ýmislegt mis gáfulegt.“

Sá risastórt tækifæri
Eftir skólaskyldu fór Magne að starfa sem handlangari á trésmíðaverkstæði en svo lá leið hans í Verkmanntaskólann á Akureyri á myndlista- og handiðnabraut. Hann var eini karlmaðurinn í allri deildinni, þar teiknaði hann, málaði og lærði einnig á vefstól.
„Eftir verkmenntaárin lá leið mín í 4 ára myndlistar- og hönnunarnám í Myndlistaskólanum á Akureyri og ég útskrifast þaðan árið 1997 sem grafískur hönnuður. Við tók 18 ár af auglýsingagerð og sjónvarpsframleiðslu hjá fyrirtækjum eins og OZ, Fíton, Jonsson & Le’macks, CAOZ, Pipar/TBWA og einnig tók ég að mér sjálfstætt starfandi verkefni tengd hreyfimyndagerð og sjónvarpsframleiðslu. Á sama tíma var ég einnig að kenna hönnun við Myndlistarskólann og byrjaði svo að fást við location & logistics vinnu þ.e. finna hentuga staði fyrir myndatökur og fleira.
Út frá ofangreindu þá fór að þróast hjá mér mikil della og áhugi fyrir ferðamennsku um landið. Sameinaði ég þá þekkingu mína við fjallahjóladelluna og fór að taka að mér leiðsögn reiðhjólamanna ásamt því að sinna ljósmyndatökuverkefnum. Á þessum tíma var fjallahjólasport nánast ekki til á Íslandi og ég sá risa tækifæri til þess að koma Íslandi á kortið sem áfangastað fjallahjólreiðamanna.“

Bæti við uppbygginguna árlega
„Ég stofnaði fjallahjólafyrirtækið, Icebike Adentures, og fór að byggja upp ferðaþjónustu sem gekk vel og óx ört, ég stefndi á að koma Íslandi á kortið. Í framhaldi sá ég þörfina á að byggja upp leiðakerfi og efla aðstöðu til fjallahjólreiða um land allt meðal annars búa til og viðhalda stígum.
Ég hef verið að byggja upp brautir í Skálafelli og Hlíðarfjalli þar sem skíðasvæðin halda uppi rekstri fyrir fjallahjólreiðar og ég bæti við þá uppbyggingu árlega. Ég hélt svo áfram og bauð sveitarfélögum upp á þjónustu í uppbyggingu á leiðum en maður fann fyrir mismiklum áhuga þeirra sem ráða. Sums staðar á pólitíkin langt í land hvað varðar skilning og þá sérstaklega fyrir yngstu kynslóðina því það hafa ekki öll börn áhuga á hópíþróttum.
Undanfarið höfum við verið að vinna fyrir Hveragerðisbæ og það hefur gengið mjög vel og þar eru komnar margar góðar leiðir í fallegu umhverfi.“

Fara á leynilegar slóðir
Eiginkona Magne er, Ásta Briem framkvæmdastjóri Icebike Adventures en hún kom inn í fyrirtækið með honum árið 2013. Þau eiga þrjú börn, Eldar f. 2004, Sölva f. 2014 og Heklu f. 2015.
Þau segja áhuga fólks á hjólreiðum hafi aukist mjög mikið og hafa verið að bjóða upp á námskeið fyrir byrjendur og eins lengra komna. Í ferðum sínum leggja þau mikið upp úr því að koma viðskiptavinum sínum á leynilegar slóðir hálendisins. Farið er yfir óbrúaðar ár með breyttum jeppum og sérsmíðuðum reiðhjólavögnum.

Það er dulúð yfir landinu okkar
„Aðaláhersla okkar er að kynna Ísland og fjallahjólreiðar fyrir bæði erlendum og innlendum ferðamönnum víða um land. Það sem við höfum hér á landi er auðnin og óbyggða hálendið okkar. Möguleikinn á að geta hjólað dag eftir dag án þess að rekast á annað fólk er eitt af því sem fólk sækist eftir.
Grófleikinn, tengingin við uppruna jarðarinnar og gríðarlega fjölbreytt landslag sem tekur endalausum breytingum gerir ferðalagið spennandi og krefjandi. Ísland sem fjallahjólaland er ekki fyrir alla en þeir sem skilja jarðfræðina og átta sig á töfrum landsins, þeir koma aftur og aftur.
Það er einhver dulúð yfir landinu okkar sem er spennandi og ógnandi á sama tíma,“ segir Magne að lokum er við kveðjumst.