Tryggjum niðurgreiðslu sálfræðiþjónustu
Þann 9. september síðastliðinn birti heilbrigðisráðuneytið tvær áfangaskýrslur um óbein áhrif af Covid-19.
Það þarf í sjálfu sér ekki að koma mikið að óvart að úr þessu má lesa að geðheilbrigði þjóðarinnar hefur farið versnandi. Sérstaklega er tekið fram að faraldurinn hafi haft afgerandi neikvæð áhrif á líðan framhaldsskólanema.
Sama dag og þessi skýrsla kemur út þá birtist áskorun frá Sálfræðingafélagi Íslands og Öryrkjabandalagi Íslands um að standa við stóru orðin og fjármagna lög um niðurgreiðslu á sálfræðiþjónustu. Lög sem að allir þingmenn Alþingis samþykktu en ríkisstjórnin hefur svo ekki séð um að fjármagna. Samt vitum við með staðreyndum að þörfin er mikil og hefur líklega sjaldan verið jafn brýn og nú.
Þessi lög sem félögin vísa í, í áskorun sinni, eru einmitt lög sem urðu að veruleika fyrir tilstilli Viðreisnar. Frumvarp sem ég er gríðarlega stolt af að minn flokkur hafi leitt og náð fram breiðri samstöðu um. Við vitum það í Viðreisn að niðurgreiðsla sálfræðiþjónustu skiptir máli og á að vera sjálfsagður hlutur. Við erum komin á þann stað núna 2021 að vita það að andleg heilsa skiptir alveg jafn miklu máli og sú líkamlega. Svo það er mikilvægt að við veitum fólki tækifæri til þess að geta sótt sér þessa þjónustu.
Við munum halda áfram að berjast fyrir þessu máli svo að sem allra fyrst geti Íslendingar gengið að þessu sem sjálfsögðum hlut. Það er mikilvægt fyrir okkur öll og þá sérstaklega unga fólkið okkar sem kemur nú út úr þessum heimsfaraldi verr statt andlega en það var fyrir faraldurinn. Sjáum til þess að þeirra bíði kerfi sem getur stutt þau við að vinna sig út úr þessu svo þetta þurfi ekki að fylgja þeim út lífið.
Gefðu framtíðinni tækifæri!
Settu X við C þann 25. september.
Elín Anna Gísladóttir,
höfundur skipar 3. sæti á lista
Viðreisnar í Suðvesturkjördæmi.