Vilja koma málefnum langveikra og fatlaðra á framfæri
Ágústa Fanney Snorradóttir kvikmyndagerðarkona rekur fyrirtækið Mission framleiðsla sem staðsett er í Háholti 14.
Ágústa hefur búið í Mosfellsbæ síðan í byrjun 2019 ásamt konu sinni og tveimur dætrum. Ágústa er menntuð í kvikmyndagerð og sjónvarpsframleiðslu frá skólanum COC í Kaliforníu. „Ég útskrifaðist 2013 og gerði þá heimildamyndina HUMAN TIMEBOMBS sem tekur á taugasjúkdóminum AHC, myndin hlaut fjölda verðlauna og mikla athygli,“ segir Ágústa sem stofnaði svo Mission framleiðslu árið 2017. „Eldri dóttir mín fæddist sama ár og ég stofnaði fyrirtækið og sú yngri kom í heiminn 17 mánuðum síðar í Kaliforníu þar sem við vorum búsettar á þeim tíma.
„Ég hef unnið með nokkrum fyrirtækjum hérna heima, framleitt og leikstýrt alls konar efni en ég starfa einnig sem tökumaður og klippari. Það er virkilega gaman að vera núna komin með Mission framleiðslu í gang og ekki skemmir fyrir að vera staðsett hér í dásamlega Mosfellsbæ.“
Margra ára samstarf við Góðvild
Ágústa er að framleiða ýmis myndbönd og kynningarefni og má þar nefna Spjallið með Góðvild sem sýndur er í hverri viku á vísir.is.
Þættirnir eru afurð margra ára samstarfs Ágústu og Sigurðar Hólmars Jóhannessonar sem er framkvæmdastjóri Góðvildar. „Þegar ég fékk það verkefni á vegum Góðvildar um að gera kynningamyndbönd fyrir félagið þá kviknaði þessi hugmynd að þáttunum. Ég fann að það var bara of mikið af hlutum sem þyrfti að ræða og koma hreyfingu á varðandi þennan málaflokk.
Inntak þáttanna er að koma mikilvægum málefnum langveikra og fatlaðra á Íslandi á framfæri. Við erum að vekja athygli á öllu sem við kemur þessum málaflokk, viðmælendur okkar spanna allan skalann, allt frá sjúklingum, foreldrum langveikra og fatlaðra barna til stjórnenda og stjórnmálamanna sem hafa meira með kerfið að gera.“
Anna Greta nýjasti viðmælandinn
„Þættirnir fóru að stað síðasta haust eru sýndir alla þriðjudaga á vísi, áhorfið hefur verið mikið og við fengið mikil viðbrögð.
Það er gaman að segja frá því að í nýjasta þættinum er viðmælandi okkar hún Anna Greta Ólafsdóttir skólastjóri Varmárskóla.
Anna Greta er sjálf með ADHD og henni er mikið í mun að skólakerfið mæti börnum á þeirra forsendum. Hún hefur góða og skýra sýn á skólakerfið á Íslandi og sterkar skoðanir á því hvernig við eigum að mæta börnum með námsörðugleika betur, hún er alveg frábær fyrirmynd,“ segir Ágústa að lokum og tekur fram að alla þættina má nálgast á Vísir.is.