Okkar Mosó 2021
Kæru Mosfellingar.
Íbúalýðræði er eitt af stefnumálum Vina Mosfellsbæjar því við vitum að íbúarnir eru sérfræðingar í nærumhverfinu. Því er það gleðiefni að verkefnið Okkar Mosó er komið af stað að nýju.
Markmiðið með verkefni sem þessu er að fá almenning til þátttöku í lýðræðislegri umræðu og ákvarðanatöku. Okkar Mosó er tilvalinn staður fyrir íbúa til að koma með bæði skemmtilegar hugmyndir svo og góðar ábendingar að nýframkvæmdum og viðhaldsverkefnum.
Hugmyndirnar geta verið af ýmsum toga og til þess fallnar að hafa jákvæð áhrif á umhverfi og íbúa, unga sem aldna. Í ár er áætlað að verja um 35 milljónum króna í verkefnið sem kemur til framkvæmda frá sumri 2021 og fram á árið 2022 eftir umfangi verksins.
Nokkur skilyrði eru fyrir því að hugmyndin komist áfram í kosningu og þá helst að hún nýtist hverfum eða íbúum bæjarins í heild, sé auðveld í framkvæmd, sé í verkahring bæjarins, falli að skipulagi og stefnu Mosfellsbæjar og kostnaður sé ekki mjög mikill þannig að nokkrar hugmyndir geti hlotið brautargengi.
Í Okkar Mosó 2017 tóku um 14,0% íbúa þátt og komust tíu hugmyndir áfram, svo sem fjölgun bekkja fyrir eldri borgara, ungbarnarólur á róluvelli bæjarins, fuglafræðslustígur meðfram Leirvoginum og strandblakvöllur á Stekkjarflöt. Í Okkar Mosó 2019 komu fram margar frábærar hugmyndir og nýttu 19,1% bæjarbúa sér atkvæðisétt sinn sem er mesta þátttaka sem verið hefur í sambærilegum kosningum hér á landi.
Verkefni sem þá fengu brautargengi voru meðal annars, ærslabelgur á Stekkjarflöt sem svo sannarlega hefur slegið í gegn, betri lýsing við göngustíga, leikvellir fyrir yngstu börnin, Miðbæjartorgið fegrað, kósý Kjarni ásamt ýmsu fleiru sem sjá má á heimasíðu verkefnisins. Öllum þeim sem komu fram með tillögur eru færðar bestu þakkir fyrir hugmyndaauðgi.
Hugmyndavefurinn er opinn til 6. apríl nk. og verður kosið um bestu hugmyndirnar dagana 31. maí til 6. júní nk. Nú þegar hafa margar frábærar tillögur komið fram og vil ég hvetja alla Mosfellinga til að taka þátt í þessu skemmtilega verkefni og hafa þannig áhrif á nærumhverfi okkar.
Allir íbúar sem hafa lögheimili í Mosfellsbæ geta kosið og vil ég sérstaklega geta þess að kosningin er opin öllum sem verða 15 ára eða eldri á kosningaárinu, því hvet ég ungt fólk til þátttöku og taka þannig þátt í málefnum bæjarins. Nánari upplýsingar eru á vefsvæðinu mos.is/okkarmoso
Tökum þátt, því saman byggjum við upp betri bæ.
Margrét Guðjónsdóttir
Höfundur er varabæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar og aðalmaður í lýðræðis- og mannréttindanefnd.