Góðmennska og virðing
Yngsti sonur minn heldur með Manchester City. Einn af fáum sem ég þekki sem gerir það. Ýmsir hafa strítt honum á því: „Hva, þú velur þér bara besta liðið!“ Eins og allir þeir sem halda með Liverpool og Manchester United hafi ákveðið að styðja þau ágætu lið þegar allt var í ládeyðu hjá þeim … Við erum fjórir í fjölskyldunni sem höfum áhuga á enska boltanum. Enginn heldur með sama liði. Mér finnst það skemmtilegt. Það skapar áhugaverðar umræður og eykur umburðarlyndi. Heimilismenn eru ekki allir forritaðir eins og eru ekki blindir á allt nema ágæti síns liðs.
Við horfðum saman á Liverpool – Manchester City um síðustu helgi. Manchester City vann 4-1. Ekki síst vegna mistaka markvarðar Liverpool, hins brasilíska Alisson. Það fyrsta sem sá yngsti sagði við mig daginn eftir leikinn var: „Ég vorkenni Alisson.“ Mér þótti vænt um að heyra það. Frekar en að missa sig í gleðinni yfir því að liðið hans hefði unnið mikilvægan leik, hugsaði hann meira um hvernig manninum sem hafði gert mistökin stóru liði. Mér finnst að íþróttir eigi að snúast um þetta, virðingu og góðmennsku.
Þú keppir til að vinna og gerir allt sem þú getur til að vinna og ná árangri, en að sama skapi viltu ná árangri vegna þess að þú gerðir vel, ekki vegna þess að sá sem þú kepptir við gerði mikil mistök. Ég hef upplifað ótrúlega margar góðar stundir í tengslum við íþróttir sjálfur og fannst skemmtilegast að kynnast og keppa við stráka úr öðrum liðum þegar ég var sjálfur í yngri flokkunum. Við börðumst inni á vellinum en spjölluðum og hlógum saman utan vallar.
Íþróttir eru að mínu mati frábær vettvangur fyrir krakka að upplifa akkúrat þetta, þessa skemmtilegu blöndu af keppni og samkennd. Sem þau síðan taka með sér inn í lífið. Lifi sportið!
Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 11. febrúar 2021