Rapparinn ferrARI með sína fyrstu plötu
Ari Jakobsson, 16 ára drengur úr Mosfellsbæ, var að gefa út á Spotify sína fyrstu plötu. Platan nefnist ÖRVÆNTING og inniheldur sjö lög.
Ari sem kallar sig ferrARI býr til alla tónlistina og textana sjálfur auk þess að taka upp og hljóðblanda plötuna. „Þetta er hipp hopp, rapp plata, sem ég er rosalega ánægður með.
Ég bý til alla taktana, sem textana, tek upp, tappa og mixa allt sjálfur. Þetta var skemmtilegt ferli og mikil reynsla,“ segir Ari.
Sjö lög sem segja eina sögu
„Það eru sjö lög á plötunni sem í heild sinni segja eina sögu eða eins og það kallast concept-plata. Saga er um strák sem er bálskotinn í stelpu en í raun klúðrar málunum með því að reyna of mikið þannig að þetta þróast í hálfgerða örvæntingu hjá honum.
Það þarf eiginlega að hlusta á plötuna frá byrjun til enda til að skilja söguna. Það er skrítið að vera að gefa út sína fyrstu plötu í þessu skrítna ástandi en ég hef helst notað samfélagsmiðla til að koma mér á framfæri, það kemur vonandi að því að maður geti farið að spila fyrir fólk.“
Mikil tónlist á heimilinu
Það má segja að Ari sé sjálfmenntaður í tónlist en segist hafa fengið mikið og fjölbreytt tónlistarlegt uppeldi en pabbi Ara er bassaleikarinn Jakob Smári Magnússon. „Pabbi er tónlistamaður og þar af leiðandi hef ég alist upp við tónlist allt mitt líf. Það er varla til sú tónlistarstefna sem ekki hefur verið spiluð á heimilinu.
Ég hef alla tíð haft mikinn áhuga á hverslags tónlist og langaði að prófa að gera mína eigin og prófa þetta ferli. Ég hef ekki farið í hefðbundið tónlistarnám, það hentar mér betur að læra bara sjálfur og læra það sem mig langar að læra.“
Frábær aðstaða í Bólinu
Ari tók upp alla plötuna í kjallara Bólsins þar sem ungir tónlistamenn í Mosfellsbæ hafa aðstöðu til að sinna tónlistinni.
„Það að hafa tækifæri á að nýta aðstöðuna í Bólinu er alveg brilljant. Ég tók upp alla plötuna þarna, það er ómetanlegt fyrir okkur krakkana í Mosó sem erum í tónlist að hafa kjallarann, þarna er frábær hljómsveitaaðstaða og stúdíó,“ segir Ari að lokum og hvetur alla til að hlusta á plötuna ÖRVÆNTING á Spotify.