Lögreglan vonast til að búið sé að koma böndum á ástandið
Karlmaður á sextugsaldri var handtekinn og færður í gæsluvarðhald í stórri aðgerð lögreglunnar í Mosfellsbæ miðvikudaginn 4. nóvember.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu framkvæmdi húsleit í tveimur húsum að undangengnum dómsúrskurði. Hald var lagt á töluvert magn af þýfi sem hefur gengið þokkalega að koma aftur í réttar hendur að sögn lögreglu. Innbrotafaraldur hafði geisað í nálægum hverfum um töluvert skeið.
Halda eftirliti áfram á svæðinu
Tveimur vikum áður höfðu íbúar í Brekkutanga og nágrenni sent áskorun til sýslumanns, lögreglu, bæjaryfirvalda og fleiri vegna málsins. Óskað var eftir úrræðum en áhyggjurnar snéru að veikindum, fíkniefnaneyslu, ofbeldi, COVID smitum o.fl. sem gæti haft slæm áhrif á nærsamfélagið.
„Við vonum að búið sé að koma böndum á ástandið,“ segir Elín Agnes Kristínardóttir aðstoðaryfirlögregluþjónn á Vínlandsleið. „Við komum til með halda uppi eftirliti á svæðinu áfram og vonumst til að hlutirnir fari ekki í sama farveg. Það er óviðunandi fyrir alla, enda skiptir máli fyrir fólk að búa við öryggi á sínum heimilum.“
Elín Agnes vill benda fólki á, sem verður fyrir tjóni, að tilkynna slíkt alltaf til lögreglu þannig að hún hafi allar upplýsingar í höndunum. Ekki bara spjalla inni á íbúasíðum á facebook.