Íþróttalífið af stað eftir sumarfrí

Hanna Björk Halldórsdóttir

Nú fer að líða að því sem allir hafa verið að bíða eftir: Íþrótta- og tómstundastarf hefst á ný eftir sumarfríið!
Við erum svosem alltaf spennt á haustin, en það er ekki laust við að fiðringurinn sé örlítið meiri en venjulega að þessu sinni.
Fyrir margar vetraríþróttir var þetta sumar heldur lengra en við höfðum séð fyrir okkur – af ástæðum sem ættu að vera öllum kunnar. Þannig þurftum við að læsa dyrunum að okkar æfingasölum og slökkva ljósin talsvert fyrr en við erum vön.

Í haust ætlum við að keyra allt starf í gang strax í næstu viku. Við búum sérstaklega vel þegar kemur að starfsfólki og erum ákaflega stolt af því hvernig þjálfarar okkar og sjálfboðaliðar tóku á málunum í vor þegar samkomubann var sett á vegna COVID-19. Þá kynntu þau til sögunnar fjaræfingar sem fóru ýmist fram í gegnum Facebook eða æfingaforritið Sideline.

Sideline Sports er forrit sem allir foreldrar með iðkendur hjá okkur ættu að hafa heyrt um og kynnt sér. Þar eiga öll samskipti á milli þjálfara og foreldra — og þjálfara og iðkenda í eldri flokkum — að fara fram.
Þjálfarar geta sett upp æfingaplön og tímatöflur, auk þess að senda skilaboð til iðkenda eða foreldra þeirra í kringum æfingar og keppnir.
Félagið hefur unnið hægt og örugglega að því að taka Sideline í notkun síðan í fyrra, en í haust er stefnan sett á að keyra það í almenna notkun og ættu allir foreldrar að sækja það og koma sér inn í það.
Frekari leiðbeiningar er að finna á heimasíðunni okkar, www.afturelding.is, en þar er einnig að finna aðrar nauðsynlegar upplýsingar, eins og stundatöflur vetrarins. Að auki má finna ítarlegar upplýsingar um þær 11 deildir sem við starfrækjum fyrir alla aldurshópa.

Með Mosfellingi í dag ætti líka að fylgja bæklingur þar sem deildirnar kynna sitt starf. Við hvetjum foreldra til að setjast niður með börnunum sínum og aðstoða þau við að finna sport við sitt hæfi. Skráningar eru hafnar í öllum deildum, nema knattspyrnudeildinni.
Þar sem fótboltafólkið okkar er enn að spila sitt tímabil tefjast skráningar í hana örlítið. Yngstu flokkarnir klára í byrjun september og hefst nýtt tímabil hjá þeim um miðjan þann mánuð.
Við hlökkum svo sannarlega til næstu vikna þegar íþróttalífið kviknar.
Sjáumst!
Bestu kveðjur,

Hanna Björk Halldórsdóttir
Íþróttafulltrúi