Unnið að deiliskipulagi fyrir atvinnukjarna í landi Blikastaða
Mosfellsbær og Reitir fasteignafélag vinna saman að deiliskipulagi fyrir nýjan atvinnukjarna í landi Blikastaða.
Svæðið er við Vesturlandsveg á sveitarfélagamörkum Reykjavíkur og Mosfellsbæjar. Á svæðinu er fyrirhuguð uppbygging atvinnukjarna sem skipulagður verður með náttúru, sjálfbærni og samnýtingu að leiðarljósi. Náttúra og lífríki í ánni Korpu og í skógræktinni í hlíðum Úlfarsfells skapa vistlega umgjörð um hverfið. Deiliskipulag tekur mið af náttúru, hugmyndum um sjálfbærni og samnýtingu innviða á svæðinu.
Vegtengingar eru greiðfærar og Borgarlína er fyrirhuguð gegnum svæðið sem er mikilvægt fyrir eflingu atvinnulífs Mosfellsbæjar.
Atvinna, náttúra og sjálfbærni
„Okkar markmið er að svæðið byggist upp í takt við þarfir fyrirtækja með atvinnu, náttúru, sjálfbærni og samnýtingu að leiðarljósi. Við viljum velta við hverjum steini og hvetjum íbúa til að taka þátt í mótun svæðisins og hjálpa okkur að finna því viðeigandi nafn,“ segir Friðjón Sigurðarson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Reita.
Væntingar standa til þess að deiliskipulagsvinnu Blikastaðalandsins ljúki seinnihluta árs 2020 og að gatnagerð og framkvæmdir geti hafist árið 2021. Hraði uppbyggingar á svæðinu mun m.a. ráðast af markaðsaðstæðum. Gera má ráð fyrir að það gæti tekið allt að tíu til tólf ár frá því gatnagerð hefst þangað til svæðið verður fullbyggt.