Ný gas- og jarðgerðarstöð tilbúin til notkunar
Ný flokkunarlína fyrir úrgang var tekin í notkun 18. júní í móttökustöð SORPU í Gufunesi, sem markar upphaf prófunarferlis á flokkun úrgangs frá heimilum. Um er að ræða mikilvægt undirbúningsskref fyrir vinnslu í nýrri gas- og jarðgerðarstöð (GAJA) á Álfsnesi.
Nýja flokkunarlínan tekur við lífrænum úrgangi frá heimilum á höfuðborgarsvæðinu, hreinsar úr honum plast og málma og býr til efni sem er hæft til vinnslu í GAJA. Við sama tilefni var GAJA kynnt fyrir stjórn SORPU, fulltrúum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og fjölmiðlum, en miðað er við að tilraunavinnsla hefjist í stöðinni í júlí.
Losun koltvísýrings minnkar gríðarlega
Þegar GAJA kemst í fullan rekstur verður hætt að urða lífrænan úrgang á svæðinu en í stað þess verða unnin úr honum gas- og jarðgerðarefni.
Áætlað er að það muni minnka losun koltvísýrings um 90 þúsund tonn á ári sem jafngildir því að taka 40 þúsund bensín- eða díselbíla úr umferð og hægt verður að nýta innlenda orku í auknum mæli í stað innflutts eldsneytis. Auk þriggja milljóna rúmmetra af metani verða til í stöðinni árlega um 12 þúsund tonn af moltu sem nýtt verður til landgræðslu og jarðarbóta.
Skuldbindingar á sviði loftslagsmála
Höfuðborgarsvæðið er með þessu verkefni í leiðandi hlutverki í umfangsmesta umbreytingaverkefni á sviði umhverfismála hérlendis og liður í því að gera Íslandi kleift að standa við alþjóðlegar skuldbindingar okkar í loftlagsmálum.
Miðað er við að stöðin verði komin í fulla starfsemi á næstu mánuðum. Vinnslan þarf að standast þær kröfur um gæði sem kveðið verður á um í starfsleyfi stöðvarinnar og því skiptir eftirlit með vinnslunni höfuðmáli.
Urðun lífræns úrgangs hverfi alfarið
„Starfsemi gas- og jarðgerðarstöðvar á Álfsnesi er mikilvægt umhverfismál fyrir Íslendinga en um leið ákaflega mikilvægt hagsmunamál fyrir okkur Mosfellinga. Þegar fullri afkastagetu verður náð verður unnt að hverfa alfarið frá urðun lífræns úrgangs á Álfsnesi sem fylgt hefur lyktarmengun við vissar aðstæður, sem nauðsynlegt var að bregðast við með stórtækri aðgerð.
Næsta verkefni er síðan að fara í aðgerðir til að breyta ásýnd svæðisins frá Mosfellsbæ séð sem felur í sér að reisa mön þannig að athafnasvæðið blasi ekki við í beinni sjónlínu,“ segir Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar.