Umferðarmál í Helgafellshverfi
Talsverð umræða hefur verið um umferðarmál í Helgafellshverfi undanfarna mánuði í tengslum við opnun á Helgafellsskóla fyrir ári síðan og áframhaldandi uppbyggingu hverfisins. Til þess að fá mynd af stöðu umferðarmála fól Mosfellsbær Verkfræðistofunni Eflu að skoða umferðarmálin í Helgafellshverfi. Framkvæmdar voru m.a. umferðartalningar, farið yfir öryggismál, tengingar út úr hverfinu, bílastæðamál, hraðahindranir á Helgafellsvegi o.fl.
Umferðartalningar
Umferð á Helgafellsvegi var talin í október 2019 og mældist umferðin 5.500 ökutæki á sólarhring (virkur dagur). Umferðarspár deiliskipulags Helgafellshverfis áætla að umferð á Helgafellsvegi verði um 10.000 ökutæki á sólarhring eftir að hverfið verður fullbyggt og miðað við umferðina í dag og núverandi uppbyggingu má gera ráð fyrir að þær spár muni ganga eftir.
Búast má við að umferð Helgafellshverfis geti aukist um allt að fjórðung þegar 4. áfangi hverfisins verður fullbyggður eftir nokkur ár. Vinnuumferð vegna uppbyggingar 4. áfanga muni fara um Vefarastræti, en fram kemur í samningi Mosfellsbæjar og byggingarverktaka að allur uppmokstur á efni verði nýttur inni á svæðinu, m.a. í landmótun og manir. Mun því efni ekki vera flutt í gegnum hverfið og þar af leiðandi mikil lágmörkun vinnuumferðar sem er mjög jákvætt.
Auk þess mun einn aðili, Byggingafélagið Bakki sjá um uppbyggingu á þessum áfanga og verður sú vinna áfangaskipt til nokkurra ára. Það fyrirkomulag mun takmarka enn frekar umferð og ónæði í hverfinu heldur en ef margir verktakar væru að vinna á svæðinu á sama tíma.
Hringtorg við Vesturlandsveg og tengingar út úr Helgafellshverfi
Hringtorg við gatnamót Vesturlandsvegar-Helgafellsvegar ætti að anna eftirspurn umferðar vegna uppbyggingar 1.-4. áfanga en gæti þó reynst erfitt að komast inn í hringtorgið á álagstoppum árdegis og á umferðamiklum sumareftirmiðdögum. Við frekari uppbyggingu þykir þó nauðsynlegt að opna fyrir viðbótartengingu við Helgafellshverfi og verður það gert eftir því sem hverfið byggist upp.
Tengingin við Þingvallarveg um Ásaveg þykir góður kostur sem viðbótartenging við Helgafellshverfið. Með tilliti til umferðaröryggis er þó nauðsynlegt að uppfæra og laga veginn og útfæra gatnamótin við Þingvallarveg betur og eru viðræður í gangi við Vegagerðina um útfærslu þar að lútandi.
Í aðalskipulagi Mosfellsbæjar er einnig gert ráð fyrir vegtengingu austur úr Helgafellshverfi sem tengist inn á nýjan Kóngsveg sem einnig er á skipulagi bæjarins.
Bílastæðamál
Óskir hafa borist til bæjaryfirvalda um að skoða möguleika á fjölgun bílastæða í áfanga 1.-3. í Helgafellshverfi. Möguleikar eru á að koma fyrir viðbótar bílastæðum á t.d. Varmárgötu og fleiri stöðum samkvæmt skýrslu Verkfræðistofunnar Eflu og er það til skoðunar hjá umhverfissviði. Í skýrslunni koma einnig fram tillögur varðandi umbætur og breytingar á hraðahindrunum á Helgafellsvegi og verða ákvarðanir um þær breytingar framkvæmdar eftir yfirferð og hönnun þeirra hjá fagaðilum.
Umferðaröryggi
Umferðaröryggi í Helgafellshverfi er mjög mikilvægt sem og í öðrum hverfum Mosfellsbæjar. Tilgangur þess að óskað var eftir skýrslu frá Verkfræðistofunni Eflu var að fá sem gleggsta mynd af stöðu umferðarmála í hverfinu og fá fram tillögur um hvernig auka megi umferðaröryggi. Margar góðar ábendingar koma fram í skýrslunni og eru þær í vinnslu og útfærslu hjá fagfólki á umhverfissviði Mosfellsbæjar.
Það er á ábyrgð okkar allra að huga að umferðaröryggi í hverfum Mosfellsbæjar og þar leikum við íbúar aðalhlutverk. Við getum lagt mikið af mörkum með því að virða umferðarreglur og ekki síst reglur um umferðarhraða. Því miður er það staðreynd að þeir sem keyra of hratt í hverfunum okkar eru við íbúarnir sjálfir.
Skýrsla Eflu hefur verið send íbúasamtökum Helgafellhverfis og ég hvet áhugasama að kynna sér innihald hennar. Íbúar verða svo upplýstir jafnóðum um þær umbætur og verkefni sem verða framkvæmd sem snúa að umferðarmálum í Helgafellshverfi.
Ásgeir Sveinsson, formaður bæjarráðs og skipulagsnefndar Mosfellsbæjar.