Leggðu höfuðið í bleyti
Eitt af því sem við flest sjáum eftir er að hafa ekki tekið til máls og látið okkar skoðun í ljós þegar við höfðum eitthvað að segja.
Flest þekkjum við þá tilfinningu að vera í hópi fólks, hvort sem er á fundi eða í öðrum kringumstæðum, og vilja leggja eitthvað til umræðunnar, en ekki getað. Öll sem eru í kringum okkur virðast vera svo örugg og ákveðin, en við berjumst við að finna kjarkinn til að biðja um orðið og segja það sem við viljum segja.
Kringumstæðurnar eru margvíslegar. Þetta getur verið á fundi í vinnunni, í foreldrafélaginu, í húsfélaginu eða bara í kaffispjalli einhvers staðar. Eitt það versta er að vera í mannfögnuði og vilja ávarpa afmælisbarnið, fermingarbarnið eða brúðhjónin.
Við undirbúum frábæra ræðu og förum með hana í huganum, en frestum því alltaf örlítið lengur að standa upp og taka til máls. Svo gerist það allt í einu að mælendaskrá er lokað og við komumst ekki að.
Í POWERtalk samtökunum hittist fólk reglulega og æfir sig í þessu, fundarsköpum og mörgu öðru. Við fáum fjölbreytt verkefni sem geta verið frá því að flytja þrjátíu sekúndna hvatningu upp í að flytja þrjátíu mínútna kynningu á einhverju sem við höfum áhuga á. Félagarnir fylgjast með flutningnum og í lok funda er hægt að fá ábendingar um hvað heppnaðist vel og hvað hefði mátt fara betur.
Megináherslan með þátttöku í starfi POWERtalk er að taka til máls við hvers kyns tækfæri, að semja og flytja stutt eða lengri erindi og taka þátt í umræðum.
Á næsta fundi hjá okkur í POWERtalk deildinni Korpu í Mosfellsbæ ætlum við að auka orðaforða okkar og víkka þekkingu á orðatiltækjum, því íslenskan er full af orðatiltækjum sem setja skemmtilegan blæ á samskiptin.
Orðatiltækin auðga og skreyta málið en Bibba á Brávallagötunni á það til að stinga sér niður enda getur verið erfitt að fóta sig í heimi orðatiltækjanna því margir þekkja ekki hver upprunaleg merking þeirra er.
Eitt skemmtilegasta orðatiltækið sem mikið er notað er „að leggja höfuðið í bleyti“. Það er auðvitað nokkuð sérstakt að leggja höfuðið í bleyti ef maður vill hugsa eitthvað. Skýringin á þessu er byggð á lélegri þýðingu úr dönsku „að lægge sit hoved i blød“, en það merkir að menn leggja höfuðið á eitthvað mjúkt, t.d. kodda, og hugsa djúpt. ‘Blød’ var einfaldlega þýtt á íslensku sem ‘bleyti’!
Á næsta fund Korpu kemur Eyþór Eðvarðsson frá Þekkingarmiðlun og flytur fyrirlestur um íslensk orðatiltæki. Fundurinn verður á annarri hæð í Safnaðarheimili Lágafellssóknar miðvikudaginn 15. janúar kl. 19:30.
Viljir þú meiri upplýsingar getur þú sent okkur póst í netfangið korpa@powertalk.is og/eða kíkt á vefinn powertalk.is.
Aðalheiður Rúnarsdóttir