Varmárkórinn er nýr kvennakór í Mosfellsbæ

kvennakór

Nýr kór hefur verið stofnaður í Mosfellsbæ. Kórinn er aðallega skipaður fyrrverandi félögum Skólakórs Varmárskóla en fleiri áhugasamir geta þó tekið þátt en þurfa að vera söngvanir.
Það var flottur hópur fyrrverandi félaga sem söng á 40 ára afmælistónleikum Skólakórs Varmárskóla í vor og einhverjir höfðu á orði að gaman væri að gera eitthvað meira úr þessu. Varð það tilefni að stofnun kórsins sem er kvennakór.
Markmið kórsins er að syngja saman í góðum félagsskap og vera stuðningur við kórstarfið í Varmárkóla auk þess að vera með eigin tónleika eða í samvinnu við aðra.
Kórinn hefur fengið æfingaaðstöðu í Varm­árskóla og þurfa kórfélagar ekki að greiða kórstjóra laun eða önnur kórgjöld.
Æfingar eru tvisvar í mánuði, að öllu jöfnu annan og fjórða miðvikudag hvers mánaðar. Þetta er því upplagt tækifæri fyrir þær sem hafa gaman af syngja í kór en vilja kannski ekki binda sig í hverri viku.
Kórinn hefur fengið nafnið Varmárkórinn. Söngstjóri er Guðmundur Ómar Óskarsson, netfang gudm.omar@gmail.com.