SIGRAR
Við fórum 25 manna hópur til Barcelona fyrir stuttu að taka þátt í skemmtilegri keppni sem kallast Spartan Race. Fyrir suma var þetta fyrsta keppnin, aðrir voru búnir að taka þátt í nokkrum keppnum frá því að við kynntumst henni fyrst í desember 2018. Það var kjarnakona í æfingahópnum okkar sem stakk upp á því að við myndum taka þátt í Spartan Race í Hveragerði 2018 og vorum við nokkur sem stukkum á þá hugmynd. Hún var sjálf reyndar fjarri góðu gamni þá, en löglega afsökuð og kemur sterk inn í næstu keppni sem við förum í.
Spartan Race er magnað fyrirbæri, það geta allir tekið þátt í sömu keppninni en á sínum forsendum og í flokki sem hentar viðkomandi. Afreksíþróttamenn, atvinnumenn í greininni, keppa á sama stað og fólk sem hefur aldrei tekið þátt í utanvegarþrautahlaupi. Munurinn er vegalengdin sem er hlaupin, erfiðaleikastig þrautanna sem þarf að leysa á leiðinni og hvort þú mátt fá aðstoð frá öðrum eða ekki.
Við sem tókum þátt í Hveragerði urðum strax heilluð af keppninni, passlega löng hlaup, erfiðar en skemmtilegar þrautir og óvæntar aðstæður til að takast á úti í náttúrunni. Fólkið okkar hefur síðan þá tekið þátt í Kaliforníu, Búdapest, Skotlandi og svo núna í Barcelona. Mér finnst skemmtilegast að upplifa alla litlu en samt stóru sigrana í kringum keppnina. Til dæmis þegar sá 55 ára gat í keppni klifrað upp drulluskítugan og sleipan kaðallinn, eitthvað sem hann hefur dreymt um að gera síðan hann komst aldrei upp kaðal í grunnskólaleikfimi. Það var líka gaman að upplifa hvað konurnar í hópnum voru sterkar, hreinlega pökkuðu saman styrktarþrautunum í Barcelona, þrautum sem heimasæturnar áttu margar í erfiðleikum með. Samstaðan, þrautseigjan, samveran og gleðin við að klára erfiða en gefandi þrautabraut telur líka mikið.
Við erum rétt að byrja, kemur þú með næst?
Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 24. október 2019