Fagna 10 ára afmæli Sprey
Hárstofan Sprey fagnaði á dögunum 10 ára afmæli með mikilli veislu. Hárstofan er staðsett í Háholti við hlið Krónunnar. Katrín Sif Jónsdóttir stofnaði fyrirtækið fyrir áratug, þá 21 árs, og á Sprey í dag með Dagnýju Ósk Dagsdóttur.
„Okkur líður vel hér og íbúum Mosfellsbæjar fjölgar ört. Tíminn hefur verið ótrúlega fljótur að líða og svo margt sem ég hef lært og upplifað ásamt því að stofan hefur dafnað og stækkað með dásamlegu fólki,“ segir Katrín Sif.
„Það var pabbi, Jón Jósef, sem ýtti mér út í þetta fyrir 10 árum og taldi mér trú um að best væri að vera sinn eigin herra. Þannig hófst þetta ævintýri en í dag erum við tíu sem vinnum hérna, allt algjörir snillingar. Sem betur fer greip ég tækifærið sem gafst á sínum tíma og lét drauminn rætast. Það eru miklir demantar sem hafa komið að Sprey, má þar nefna Unni Hlíðberg og Svövu Björk sem áttu stofuna með mér lengi og settu blóð, svita og tár í að byggja upp fyritækið.“
Við sama tilefni var því fagnað að Katrín Sif var á dögunum kosin Hármeistari Íslands 2019 á Nordic Hair Awards & Expo sem fram fór í Kaupmannahöfn í sumar.