Fyrirmynd og innblástur fyrir konur í tónlist
Á sérstakri hátíðardagskrá bæjarhátíðarinnar Í túninu heima var tónlistarkonan Guðrún Ýr Eyförð, betur þekkt sem GDRN, útnefnd bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 2019.
Menningar- og nýsköpunarnefnd Mosfellsbæjar sér um val bæjarlistamanns ár hvert og veitti Björk Ingadóttir formaður nefndarinnar Guðrúnu verðlaunagrip eftir listakonuna Ingu Elínu ásamt viðurkenningarfé sem fylgir nafnbótinni.
Með sinn eigin feril í þrjú ár
„Þetta er mikill heiður og kom mér virkilega á óvart,“ segir Guðrún Ýr. „Ég er ekki búin að vera með minn eigin feril sem GDRN nema í þrjú ár en ég hef verið að læra tónlist í um tuttugu ár og ég stæði ekki hérna í dag ef ekki væri fyrir allt frábæra tónlistarfólkið og tónlistarkennarana sem eru búnir að miðla af sinni reynslu til mín. Mig langar því að tileinka þeim þessi verðlaun, af því ég væri ekki hér í dag ef það væri ekki fyrir þau.
Það væri gaman að geta nýtt nafnbótina til að hjálpa ungu fólki í Mosfellsbæ sem vill fara í listnám. Þar myndi ég glöð vilja veita einhverjum innblástur og halda áfram að gefa af minni þekkingu sem mér var gefin frá öðru tónlistarfólki.“
Hóf fiðlunám í Listaskóla Mosfellsbæjar
Guðrún Ýr er uppalin í Mosfellsbæ og hefur verið í tónlist frá unga aldri. Hún hóf fiðlunám í Tónlistarskóla Mosfellsbæjar fimm ára, flutti sig síðar í Suzuki skólann og stundaði námið í ellefu ár. Eftir fiðlunámið færði hún sig í djasssöng og djasspíanó í FÍH meðfram námi í menntaskóla.
Hún gaf fyrst út tónlist árið 2017 og sló í gegn með laginu Lætur mig sumarið 2018. Á Íslensku tónlistarverðlaununum fyrr á þessu ári hlaut Guðrún fern verðlaun. Plata Guðrúnar Hvað ef var valin poppplata ársins, lagið Lætur mig sem hún syngur með Flóna var valið popplag ársins. Að auki var Guðrún Ýr valin söngkona ársins í flokki popp-, rokk-, raf- og hiphopptónlistar og hlaut verðlaun fyrir tónlistarmyndband ársins við lagið Lætur mig.
Magnaður mosfellskur listamaður
GDRN vinnur nú að nýrri plötu sem kemur út á næstu vikum. „Annars hefur verið meira en nóg að gera í sumar. Framundan er vinna í Þjóðleikhúsinu þar sem ég verð hluti af tónlistinni í vetur og svo styttist auðvitað í jólaösina,“ segir Guðrún Ýr sem verður ein af jólagestum Björgvins.
Í rökstuðningi menningar- og nýsköpunarnefndar segir: „Guðrún Ýr er fyrirmynd og innblástur fyrir konur í tónlist, upprennandi stjarna og magnaður mosfellskur listamaður.“