Stöndum vörð um mannréttindi

Margrét Lúthersdóttir

Margrét Lúthersdóttir

Þann 6. október 1982 var Rauði krossinn í Mosfellsbæ stofnaður í Hlégarði og fagnar því 37 ára afmæli sínu um þessar mundir.
119 árum áður hafði Alþjóðaráð Rauða krossins (ICRC) verið stofnað og 56 árum eftir það, árið 1919 var Alþjóðasamband landsfélaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans stofnað. Burðarás hreyfingarinnar eru hugsjónirnar 7; mannúð, óhlutdrægni, hlutleysi, sjálfstæði, sjálfboðin þjónusta, eining og alheimshreyfing.
Hvað þýða þessar hugsjónir eiginlega? Þær þýða það að við leitumst við að létta þjáningar fólks og koma í veg fyrir þær. Við verndum líf og heilsu einstaklinga og tryggjum að allir njóti þeirrar virðingar sem þeim ber. Við gerum ekki mun á milli fólks eftir þjóðerni þess, uppruna, trúarbrögðum, kyni, stétt eða stjórnmálaskoðunum. Við tökum ekki þátt í deilum vegna stjórnmála, uppruna, trúarbragða eða hugmyndafræði. Við gætum þess ávallt að vera sjálfstæð svo grundvallarhugsjónir séu okkar leiðarljós í öllum okkar gjörðum. Við virkjum almenning til þess að dreifa þessum boðskap með okkur í formi sjálfboðinnar þjónustu. Við erum opin og reynum eftir fremsta megni að tryggja aðgengi allra að hreyfingunni. Við berum ábyrgð á því að koma til hjálpar þar sem okkar er þörf.

Á Íslandi leggjum við upp úr því að bæta og efla íslenskt samfélag og bregðast við á neyðarstundu. Sé litið til grundvallarhugsjóna hreyfingarinnar er eitt allra stærsta hlutverk okkar að standa vörð um mannréttindi og virðingu samborgara okkar. Í því felst að nálgast nágranna okkar á jafningjagrundvelli, tala gegn hatursorðræðu og fræða um fjölmenningu.

Mosfellingar, Kjalnesingar og Kjósarbúar, við hvetjum ykkur til að sameinast okkur í grundvallarhugsjónum hreyfingarinnar og bjóða nýja íbúa velkomna og taka þeim sem fyrir eru með opnum örmum.
Langi þig til að gerast sjálfboðaliði getur þú sótt um á heimasíðu Rauða krossins, www.raudikrossinn.is. Hafir þú ekki tíma má alltaf gerast Mannvinur.

Margrét Lúthersdóttir
Deildarstýra Rauða krossins í Mosfellsbæ