Heyrir barnið þitt hvað þú segir?

Fjalar Freyr Einarsson

Fjalar Freyr Einarsson

Þegar ég var strákur fór mamma með mig til heyrnarlæknis. Líklega var þetta háls- nef og eyrnalæknir en hans hlutverk var að kanna hvort heyrnin væri í lagi. Mömmu fannst ég nefnilega ekki heyra nógu vel.
Niðurstaða læknisins var að það var lítið að heyrninni. Ég veit ekki til þess að mamma hafi gert neitt meira með heyrnina en ekki er ólíklegt að hún hafi talið mig vera með „valheyrn.“ Hún hafi talið mig einfaldlega heyra það sem ég vildi heyra.
Málið var ekki alveg svo einfalt. Málið var að ég heyrði ekki í henni þegar hún kallaði á mig. Sama var upp á teningnum þegar vinir mínir voru með mér. Við heyrðum ekki þegar mamma mín kallaði á mig. Fleiri foreldrar hafa upplifað það sama. Í svona tilfellum er mögulega ekkert að barninu. Vandinn liggur mögulega í því hvernig fyrirmælunum er komið til barnsins.

Andlega fjarverandi
Skoðaðu hvar þú ert þegar þú gefur fyrirmæli og hvar barnið er þegar það á að heyra fyrirmælin. Ef þú ert í eldhúsinu og barnið í herberginu sínu, niðursokkið í leik sínum, heyrir það einfaldlega ekki þótt þú hrópir á það. Þú ert of langt í burtu og barnið er með hugann við leik sinn og er í raun „andlega fjarverandi“.
Það er lykilatriði í samskiptum foreldra og barns að skilaboð og fyrirmæli skili sér óhindrað. Það getur þýtt að foreldrið þurfi stundum að fara til barnsins til að ná athygli þess og jafnvel ná augnsambandi við barnið sitt svo öruggt sé að barnið hafi náð skilaboðunum. Það að foreldrið stígi inn í heim barnsins hefur þar að auki þann ótvíræða kost að foreldrið sér hvað barnið er að gera og getur meira að segja sest niður í örskamma stund og rætt við barnið, spurt hvað það sé að gera, gefið barninu tækifæri til að tjá sig og örvað þannig málstöðvarnar. Þessi litla stund sem foreldrið gefur barninu sínu og þarf ekki að vera meira en 30 til 60 sekúndur fær barnið auk þess til að finna að það er mikilvægt. Það hugsar eða finnur ómeðvitað: „Pabbi eða mamma settist niður hjá mér og sýndi því áhuga sem ég var að gera.“

Einföld og skýr skilaboð
Flestum börnum (og fullorðnum reyndar líka) finnst gott að fá fyrirvara svo þau séu ekki fyrirvaralaust tekin úr verkefninu sínu án þess að fá að klára. Gott er að láta barnið vita að eftir svo og svo margar mínútur þurfi það að stoppa eða þegar ákveðinn hlutur hefur gerst eigi það að stoppa. Það getur til dæmis átt við ef barnið er að horfa á sjónvarpsefni að það stoppi þegar þættinum lýkur.
Til að vera viss um að fyrirmæli eða upplýsingar þínar komist örugglega til barnsins er góð aðferð að fara til barnsins, snerta það létt til að ná örugglega athygli þess og segja skýrt: „Það er kominn matur. Komdu núna að borða.“ Ef foreldrinu finnst barnið ekki líklegt til að koma strax er tilvalið að standa hjá barninu þar til það leggur af stað með þér.
Barnið þitt heyrir í þér þegar þú gefur einföld og skýr skilaboð.
________________________
Fjalar Freyr Einarsson,
aga- og uppeldisráðgjafi
www.agastjornun.is