Róum okkur aðeins

heilsumolar27agust

Heilsa og heilbrigði snýst ekki um að vera alltaf á miljón. Við þurfum að kunna að hvíla okkur alveg eins og að taka vel á því. Ég spjallaði við tvo Mosfellinga í vikunni sem báðir töluðu um muninn á því að búa erlendis, annars vegar í Danmörku og hins vegar Hollandi, og á Íslandi. Þeir töluðu báðir um að þeir hefðu fundið svo mikinn mun á daglegu lífi við það að flytja aftur til Íslands. Allt hefði einhvern veginn skrúfast upp. Hlutir þurfa að gerast svo hratt hjá okkur.

Við höfum litla þolinmæði fyrir því að bíða eftir því að hlutir hafi sinn gang, fari sinn farveg. Við, og ég er svo sem engin undantekning, reynum alltaf að stytta okkur leið. Komast að því hvern við þekkjum eða könnumst við svo við getum skautað fram hjá kerfinu. Fengið internet-tenginguna eða læknisvottorðið strax í dag. Eða alþjóðlega ökuskírteinið sem mamma reddaði á methraða í vor þegar ég var staddur í Japan og áttaði mig á því á allra síðustu stundu að heimamenn viðurkenndu ekki íslenska ökuskírteinið mitt. Mamma og bróðir konununnar sem vinnur við hraðflutninga gengu í málið og unnu svo hratt og vel með, eða hugsanlega, aðeins til hliðar við kerfið að alþjóðlega ökuskírteinið barst yfir hafið á tíma sem aldrei hefði átt að geta gengið upp. Þetta er svona haltu mér, slepptu mér dæmi. Við erum úrræðagóð, hugsum hratt í lausnum, þorum að framkvæma og erum ekki þrælar kerfisins.

En á móti býður einmitt þetta upp á að við tökum okkur ekki tíma til að anda. Stoppa og hvíla okkur á meðan hlutir gerast. Við megum alveg taka Danina, Hollendingana og aðra sem kunna þá list okkur til fyrirmyndar. Finna jafnvægi í daglegu lífi og njóta þess betur að vera til. Njóta náttúrunnar og kyrrðarinnar. Lifa.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 27. ágúst 2019