Hlégarður menningar­miðstöð Mosfellsbæjar

Olga Jóhanna Stefánsdóttir

Olga Jóhanna Stefánsdóttir

Á 8. fundi menningar- og nýsköpunarnefndar Mosfellsbæjar 21. maí sl. lagði undirrituð áheyrnarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar í Menningar- og nýsköpunarnefnd fram tillögu undir heitinu „Stefnumótun til framtíðar í menningarmálum fyrir Mosfellsbæ“.
Tillagan var svohljóðandi:
Menningar- og nýsköpunarnefnd samþykkir að hluti af endurskoðun menningarstefnu fyrir Mosfellsbæ verði stefnumótun til framtíðar í menningarmálum fyrir Mosfellsbæ þar sem horft verði til þess að Hlégarður og svæðið þar í kring yrði þungamiðjan í uppbyggingu og hýsingu safna- og menningarstarfs í Mosfellsbæ.

Samþykkt var samhljóða á ofangreindum fundi menningar- og nýsköpunarnefndar að vísa tillögu Vina Mosfellsbæjar inn í þá vinnu sem nú stendur yfir um mótun stefnu og framtíðarsýnar á sviði menningarmála.
Tillaga Vina Mosfellsbæjar var síðan samþykkt samhljóða á 740. fundur bæjarstjórnar.
Í greinargerð með tillögunni er lagt til að efnt verði til formlegs samstarfs við fulltrúa hinna ýmsu menningarfélaga í Mosfellsbæ um þá hugmynd að Hlégarður og svæðið þar í kring verði þungamiðjan í uppbyggingu menningarstarfsemi Mosfellsbæjar, með aðstöðu fyrir söng, tónlist, leiklist og aðra menningartengda starfsemi í Mosfellsbæ.

Með vandaðri stefnumótun, sem unnin yrði í samstarfi við hin fjölmörgu menningarfélög sem starfa í Mosfellsbæ, væri markmiðið að ná utan um þarfir og óskir þessara félaga. Samhliða yrðu óskir menningarfélaganna lagaðar að stefnu og þörfum þeirrar menningartengdu starfsemi sem Mosfellsbær sjálfur hefur með höndum s.s. Bókasafns Mosfellsbæjar, Héraðsskjalasafns Mosfellsbæjar, Listasalar Mosfellsbæjar og Listaskóla Mosfellsbæjar svo eitthvað sé nefnt.
Einnig mætti huga að því í þessu sambandi hvort og þá hvernig ef til vill mætti koma upp vísi að sögusafni byggða-, stríðsminja-, iðnaðar- og verslunarsögu.

Það er mikilvægt að marka sem fyrst langtímastefnu í menningarmálum fyrir Mosfellsbæ og er sú vinna hafin með tilliti til kannana og niðurstöðu þeirra. Framtíðarsýn sem hér um ræðir er langtímaverkefni þar sem Hlégarður væri miðdepillinn. Mikilvægt er að vanda vel til verks og gera áætlanir með tilliti til þess hvað við viljum byggja upp og hvernig það er framkvæmt.
Lagt er til í greinargerðinni að efnt verið til hugmyndasamkeppni um uppbyggingu á Hlégarðssvæðinu. Álitlegustu hugmyndirnar yrðu síðan kostnaðarmetnar og framkvæmdir færu fram í áföngum á næstu 10 árum eða hraðar eftir atvikum. Aðalatriðið er að sátt verði um stefnumörkunina þannig að öllum sé ljóst í hvaða átt er stefnt.

Síðast en ekki síst er ánægjulegt hvað mikil samstaða var um tillöguna enda þörfin mikil fyrir endurbætt og ný rými fyrir menningartengda starfsemi í bænum okkar sem fer ört stækkandi.

Á meðfylgjandi slóð má skoða myndræna framsetningu af skjalinu „Hlégarður – menningarmiðstöð Mosfellsbæjar“.
https://bit.ly/2NrqHQe

Olga Jóhanna Stefánsdóttir
áheyrnarfulltrúi L-lista Vina Mosfellsbæjar í menningar- og nýsköpunarnefnd