Metal-tónlistarhátíð í Hlégarði um helgina
Dagana 13.-15. júní fer fram metal-tónlistahátíðin Ascension MMXIX í Hlégarði í Mosfellsbæ. Á hátíðinni munu koma fram um 30 hljómsveitir, bæði erlendar og innlendar.
Það eru Mosfellingarnir Gunnhildur Edda Guðmundsdóttir og Stephen Lockhart sem standa fyrir viðburðinum. Þetta er í fyrsta sinn sem hátíðin er haldin með þessu sniði en þau hafa þrisvar áður haldið sambærilega tónlistarhátíð undir nafninu Oration í Reykjavík við góðan orðstír.
Edda er menntaður hönnuður og hefur starfað mikið við verkefnastjórnun. Stephen starfar sem hjóðupptökumaður og rekur hljóðstúdíóið Studio Emissary í Mosfellsbæ.
„Upphafið að þessu tónleikahaldi má eiginlega rekja til þess að ég var að taka upp fyrir bæði erlendar og innlendar hljómsveitir og langaði að halda viðburð fyrir þær. Þetta var fjótt að vinda upp á sig og í ár koma um 30 hljómsveitir fram og við búumst við að það verði uppselt. Sérstaða okkar er að yfir 60% af tónlistargestum eru útlendingar,“ segir Stephen.
Hlégarður passar fullkomlega
„Við erum rosalega ánægð að halda tónlistahátíðina hér í Mosó. Hlégarður passar fullkomlega utan um viðburðinn. Við höfum fengið mjög jákvæð viðbrögð bæði frá Mosfellsbæ og íbúum.
Við hlutum menningarstyrk frá Mosfellsbæ og það er okkar von að hátíðin setji skemmtilegan svip á bæinn. Það er mikið skipulag og utanumhald um viðburð sem þennan og til að mynda eru rútuferðir úr miðbænum alla dagana í tengslum við tónleikahaldið,“ segir Edda.
Miðasala í fullum gangi
Allar upplýsingar um tónlistarhátíðina má finna á heimasíðunni www.ascensionfestivaliceland.com og kaupa miða á tix.is.
„Það er enn hægt að fá miða en við hvetjum þá sem hafa áhuga að tryggja sér miða sem fyrst. Það verður ekki hægt að kaupa miða á einstaka tónleika, einungis er hægt að kaupa passa sem gildir alla dagana,“ segir Edda sem er spennt og þakklát.
—–
30 hljómsveitir komar fram:
• Above Aurora (PL/IS)
• Akhlys (US)
• Akrotheism (GR)
• Antaeus (FRA)
• Almyrkvi (IS)
• Aoratos (US)
• Auroch (CAN)
• BÖLZER (CH)
• Carpe Noctem (IS)
• Common Eider, King Eider (US)
• Drab Majesty (US)
• Gost (US)
• Jupiterian (BRA)
• Kaleikr (IS)
• Kælan Mikla (IS)
• King Dude (US)
• Misþyrming (IS)
• Mitochondrion (CAN)
• Naðra (IS)
• NYIÞ (IS)
• THE ORDER OF APOLLYON (FR)
• Rebirth of Nefast (IRL/IS)
• Sinmara (IS)
• SÓLSTAFIR (IS)
• Svartidauði (IS)
• Treha Sektori (FR)
• Tribulation (Official) (SE)
• Vástígr (AT/IS)
• Wolvennest (BE)
• Zhrine (IS)