Kosið milli 30 hugmynda í Okkar Mosó
Nú er rafræn kosning hafin í lýðræðisverkefninu Okkar Mosó 2019 þar sem íbúum Mosfellsbæjar gefst kostur á að kjósa um verkefni til framkvæmda. Um er að ræða forgangsröðun og úthlutun fjármagns til smærri nýframkvæmda og viðhaldsverkefna í Mosfellsbæ.
Alls bárust 113 fjölbreyttar tillögur að verkefnum í hugmyndasöfnuninni. Hugmyndirnar voru metnar af sérfræðingum á umhverfissviði Mosfellsbæjar og lagt var mat á kostnað við hönnun og framkvæmd.
Afrakstur þeirra vinnu var rökstudd tillaga um 30 hugmyndir sem eftir kynningu í bæjarráði eru komnar í kosningu meðal íbúa Mosfellsbæjar á slóðinni kosning2019.mos.is
15 ára og eldri geta kosið
Í ár geta ungmenni sem verða 15 ára á árinu haft sín áhrif en ákveðið var að færa aldursmörkin þangað. Það þýðir að verðandi 10. bekkingar geta komið sínu áliti á framfæri.
Um er að ræða íbúakosningu sem er framkvæmd á grundvelli ákvæða sveitarstjórnarlaga þannig að allir kjósendur þurfa að búa yfir rafrænu skilríki eða Íslykli til þess að geta greitt atkvæði.
Forráðamenn barna geta ekki fengið Íslykil barns sendan í eigin heimabanka en ef barnið er með heimabanka á eigin kennitölu er hægt að senda Íslykilinn þangað. Annars þarf að láta senda Íslykilinn á lögheimili barnsins. Sjá nánar á island.is/islykill
Tvöfalt vægi með hjarta
Mikilvægt er að vita að þegar kosið er þarf ekki að fullnýta fjármagnið. Með því að kjósa eitt eða fleiri verkefni gefur þú þeim atkvæði þitt. Kjósendur geta líka sett hjarta við eina af þeim hugmyndum sem þeir kjósa og þannig gefið þeirri hugmynd tvöfalt vægi, tvö atkvæði í stað eins.
Íbúakosningin er hafin
Íbúar í Mosfellsbæ eru hvattir til þess að taka þátt í að velja hugmyndir og að hvetja aðra til þess að kjósa á síðunni kosning2019.mos.is.
Nánari upplýsingar er að finna á mos.is/okkarmoso og í kápunni sem hylur Mosfelling að þessu sinni.
Það er kjörið að losa kápuna af blaðinu til þess að virða allar hugmyndir fyrir sér á einni opnu og jafnvel hengja á ísskápinn til að minna heimilismenn á að kjósa.
—–
Nánari upplýsingar um lýðræðisverkefnið Okkar Mosó 2019 er að finna á mos.is/okkarmoso.
Smelltu hér til að komast beint á kosningasíðuna!