Okkar Mosó 2019!

Margrét Guðjónsdóttir

Margrét Guðjónsdóttir

Kæru Mosfellingar.
Íbúalýðræði er eitt af stefnumálum Vina Mosfellsbæjar því við vitum að íbúarnir eru sérfræðingar í nærumhverfinu.
Það gleður okkur því að samráðsverkefnið Okkar Mosó 2019 var sett af stað eftir góðan árangur sem varð af verkefninu Okkar Mosó 2017, en þá var kosið á milli 25 hugmynda og komust tíu hugmyndir til framkvæmda. Má þar nefna fjölgun bekkja fyrir eldri borgara, ungbarnarólur á róluvelli bæjarins, fuglafræðslustíg meðfram Leirvogi og strandblakvöll á Stekkjarflöt. Í þeim kosningum nýttu sér um 14% íbúa kosningarétt sinn en nú skulum við gera enn betur.

Markmiðið með verkefni sem þessu er að fá almenning til þátttöku í lýðræðislegri umræðu og ákvarðanatöku. Okkar Mosó er tilvalinn staður fyrir íbúa til að koma með bæði skemmtilegar hugmyndir svo og góðar ábendingar að nýframkvæmdum og viðhaldsverkefnum og í ár var ekki skortur þar á. Eiga þeir sem settu fram hugmyndir eða bentu á þörf verkefni þakkir skildar.
Í greinargerð með fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar fyrir árið 2019 var ákveðið að setja í pott 35 milljónir til verkefnisins. Hugmyndasöfnun er lokið og bárust alls 113 frábærar tillögur.
Hugmyndirnar voru metnar af sérfræðingum á umhverfissviði Mosfellsbæjar og varð niðurstaðan framsetning á 30 hugmyndum sem Mosfellingar geta nú kosið um og veitt því verkefni sem þeir hafa áhuga á sérstakt brautargengi. Verkefnin verða síðan boðin út og framkvæmd á tímabilinu júní 2019 til október 2020.
Hugmyndirnar í ár eru allt frá betri lýsingu á göngustíga, leiksvæði í Helgafellshverfi, ærslabelg við íþróttahúsið að Varmá, skautasvell á Miðbæjartorgi og sjálftæmandi flösku- og dósatunnur, svo eitthvað sé nefnt.

Rafræn kosning er hafin og stendur yfir til 28. maí nk. Ég vil hvetja Mosfellinga til að taka þátt í þessu skemmtilega verkefni og hafa þannig áhrif á nærumhverfi okkar.
Allir íbúar sem hafa lögheimili í Mosfellsbæ geta tekið þátt og vil ég sérstaklega geta þess að kosningin er opin öllum sem verða 15 ára eða eldri á árinu 2019.
Kosning og nánari upplýsingar eru á vefsvæðinu mos.is/okkarmoso.

Tökum þátt, því með íbúalýðræði byggjum við upp betri bæ.

Margrét Guðjónsdóttir
Höfundur er varabæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar og aðalmaður í lýðræðis- og mannréttindanefnd.