Myndavélar við helstu aðkomuleiðir
Undirritað hefur verið samkomulag milli Mosfellsbæjar, lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Neyðarlínunnar um kaup, uppsetningu og rekstur á öryggismyndavélakerfi í Mosfellsbæ.
Öryggismyndavélakerfið þjónar eingöngu þörfum lögreglu og annarra neyðaraðila og fer um notkun þess og aðgang að gögnum úr kerfinu samkvæmt reglum lögreglu og Persónuverndar.
Ólík hlutverk samningsaðila
Mosfellsbær kaupir öryggismyndavélar til uppsetningar í Mosfellsbæ, sér um uppsetningu þeirra og er eigandi þeirra. Mosfellsbær merkir vélarnar skilmerkilega með viðvörunum um rafræna vöktun til samræmis við lög um persónuvernd.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu útvegar búnað vegna móttöku á merkjum úr öryggismyndavélunum, upptökubúnað og annast vörslu á upptökum samkvæmt gildandi reglum og fyrirmælum Persónuverndar. Lögreglan annast vöktun á myndefninu og tekur ákvörðun um aðgang annarra neyðaraðila að myndefni í rauntíma. Þá tekur lögreglan að sér að taka á móti öllum beiðnum um aðgang að myndefni og beiðnum er varða réttindi hinna skráðu og afgreiða slíkar beiðnir í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Þá ákveður lögreglan staðsetningu myndavélanna á hverjum stað í samráði við Mosfellsbæ og Neyðarlínuna.
Neyðalínan ber ábyrgð á öllum samskiptum og samningum við eigendur fasteigna vegna uppsetningar á myndavélum á svæðinu og eru samningar um slíka aðstöðu gerðir í nafni Neyðarlínunnar.
Aukið öryggi íbúa og gesta Mosfellinga
„Það er frábært að þessi samningur sé í höfn og ekki síðra að um hann ríki breið samstaða í bæjarstjórn,“ segir Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar. „Við hjá Mosfellsbæ höfum um nokkurt skeið unnið að undirbúningi þessa verkefnis m.a. í samvinnu við íbúasamtök í hverfum Mosfellsbæjar. Á sínum tíma fagnaði bæjarráð Mosfellsbæjar því sérstaklega að áform væru uppi um að koma fyrir fleiri öryggismyndavélum í Mosfellsbæ og að slíkt fyrirkomulag, í samráði við lögreglu, væri til þess fallið að auka öryggi.
Við munum auðvitað gæta persónuverndar í hvívetna en tilgangur þessa eftirlits er fyrst og fremst að auka öryggi íbúa og gesta Mosfellinga og búa yfir sem bestum upplýsingum um atburði á hverjum tíma,“ segir Haraldur.
Innbrot algengari og skipulagðari en áður
Að undanförnu hefur uppsetning á öryggismyndavélum við helstu aðkomuleiðir innan sveitarfélaga aukist. Er það bæði vegna þess að innbrot eru nú algengari og skipulagðari en áður en einnig vegna þess að nýr myndavélabúnaðar hefur leitt til þess að upplýsingar nýtast betur en áður vegna aukinna myndgæða svo nokkuð sé nefnt.
Mikilvægt var talið að leggja heildstætt mat á hvar væri rétt að staðsetja slíkar myndavélar í Mosfellsbæ og var ráðgjafarstofunni Lotu, sem sérhæfir sig í öryggismálum, falið að vinna tillögu að staðsetningu myndavéla í Mosfellsbæ. Á þeim grunni verður verkefninu áfangaskipt m.t.t. mikilvægis einstakra svæða.