Ársreikningur
Ársreikningur fyrir árið 2018 var samþykktur nýverið í bæjarstjórn. Niðurstaða hans var góð og allar lykiltölur jákvæðar. Ástæðan er fyrst og fremst hagstæð ytri skilyrði.
Rekstrarafgangur A og B hluta er um 800 milljónir en það eru rífleg frávik frá upphaflegri áætlun með viðaukum sem var upp á rúmlega 300 milljónir. Það er umtalsverð upphæð. Líkt og árið 2017 skýrist niðurstaðan aðallega af eftirfarandi þáttum. Fjölgun íbúa um 8% var vel umfram áætlanir og tekjur íbúa hærri sem þýðir hærri útsvarsgreiðslur inn í bæjarsjóð. Þá voru vextir og verðbætur lægri en gert hafði verið ráð fyrir vegna lægri verðbólgu. Sala byggingarréttar var einnig talsvert meiri en gert var ráð fyrir.
Pólitísk forgangsröðun
Starfsfólk bæjarins hefur, eins og ávallt áður, unnið ötullega að því að halda rekstrinum innan þess ramma sem settur er í stefnumörkun þess pólitíska meirihluta sem ræður ferðinni í bæjarstjórn Mosfellsbæjar. Það sem er gert og ekki síður það sem látið er ógert er hvort tveggja byggt á pólitískum ákvörðunum meirihluta Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks og á ábyrgð þeirra.
Meginhlutverk sveitarfélagsins er að veita íbúum þjónustu og til þess nýtum við útsvarið. Sú fjölgun íbúa sem við verðum vitni að þessi árin, sem og aðhald undanfarinna ára í rekstri og viðhaldi, hrópar á innspýtingu í þjónustu bæjarins og viðhald fasteigna. Í því samhengi nefni ég sérstaklega skólana okkar, innra starf og húsnæði, en Samfylkingin hefur á umliðnum árum margrætt nauðsyn þess að bæta þar um betur.
Undanfarið ár hefur umræðan um slakt viðhald Varmárskóla verið ofarlega á baugi. Sem betur fer hefur bæjarstjórn öll loks samþykkt að fara í gagngera úttekt og viðhald á því húsi sem og öðrum byggingum sem hýsa skólastarf. Það er bara sérstakt að pólitískur meirihluti VG og Sjálfstæðisflokks skuli ekki hafa brugðist við fyrr. Vanrækt viðhald er ávísun á stóraukinn kostnað í framtíðinni. Opin umræða um það sem aflaga fer eða er talið ábótavant er jafn mikilvæg og jafnvel mikilvægari en umræða um það sem tekst vel. Með gagnsæi, opinni umræðu, samstarfi og upplýsingamiðlun má koma í veg fyrir að umræðan lendi í öngstræti. Vonandi tekst að lægja öldurnar í kringum Varmárskóla því nemendur og starfsfólk skólans þurfa vinnufrið.
Bætt þjónusta innan skólanna er að sjálfsögðu eilífðarverkefni, þar verður seint komið að endastöð. Öflug þjónusta innan skólakerfisins getur skipt sköpum fyrir þroska og framtíð nemendanna. Í svo ört stækkandi bæjarfélagi hlýtur fræðslukerfið að þurfa að bæta í og auka þjónustuframboð. Ég nefni sérstaklega sérfræðiþjónustu sem brýn nauðsyn er á að efla.
Fæðslumálin eru fyrirferðarmest í rekstri bæjarins en síaukinn fjöldi bæjarbúa kallar á að félagsþjónustan og tómstundastarf í heilsueflandi samfélagi fái aukinn stuðning svo ekki sé minnst á almennt viðhald mannvirkja og gatna eða mál málanna, umhverfismálin. Í öllum þessum málaflokkum þarf að taka til hendinni.
Eins og ég nefndi hér áður þá byggjast ákvarðanir um rekstur bæjarins á pólitískri stefnu þeirra aðila sem mynda meirihluta í bæjarstjórn, Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks. Þar er þjónustustigið í raun ákveðið og þar hvílir ábyrgðin.
Anna Sigríður Guðnadóttir
bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar