Samningum um rekstur Hamra sagt upp
Sunnudaginn 31. mars sagði Mosfellsbær upp samningum um rekstur hjúkrunarheimilisins Hamra til samræmis við uppsagnarákvæði samninganna.
Bæjarstjóra var veitt heimild til uppsagnar á aukafundi bæjarráðs Mosfellsbæjar þann 29. mars. Byggir uppsögnin á vanefndum og/eða ófullnægjandi greiðslum enda standa þær ekki undir raunverulegum kostnaði við veitingu þeirrar þjónustu sem ríkið gerir kröfu um og ber ábyrgð á að veitt sé.
„Eins og staðan er núna er ekki rekstrargrundvöllur fyrir heimilinu,“ segir Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri. „Til að auka á rekstrarvandann er fallinn úr gildi rammasamningur Félags forstöðumanna fyrirtækja í velferðarþjónustu og ráðuneytisins. Þá ákvað ráðuneytið að fella úr gildi svokallað RAI-mat, sem er ákvörðunargrunnur fyrir umönnunarþyngd sem og smæðarálag, sem kemur sér illa fyrir reksturinn á Hömrum.“
Haraldur segir að stjórn Hamra hafi tilkynnt bæjarfélaginu að heimilið sé ekki rekstrarhæft nema til komi frekari fjármunir.
Heimilið var vígt í júní 2013 og nú eru þar 33 rými en samið hefur verið um að stækka heimilið og að þar verði 74 rými. Haraldur segir að stækkunin muni laga rekstrargrundvöllinn en því miður séu nokkur ár þangað til að hún verði að veruleika.
Framlög duga ekki
„Mosfellsbær tók að sér með samningunum að annast verkefni sem ríkið ber lögum samkvæmt ábyrgð á að sé veitt. Það er miður að sú staða sé nú komin upp að Mosfellsbæ sé nauðugur sá einn kostur að rifta samningum við heilbrigðisráðuneytið um rekstur Hamra.
Við höfum um langt skeið haldið því að ráðuneytinu að framlög þess til starfseminnar duga ekki til að standa undir þeim kostnaði sem starfsemin kallar á til að unnt sé að mæta þeim kröfum sem ríkið sjálft gerir til þeirrar þjónustu sem inna þarf að hendi á hjúkrunarheimilinu Hömrum.
Ráðuneytið hefur ítrekað verið upplýst um afstöðu bæjarins og við kallað eftir viðbrögðum þess. Ráðuneytið var samhliða upplýst um áform okkar um að segja upp samningum ef viðunandi lausn fengist ekki á næstu dögum.
Nú liggur fyrir að samningnum hefur verið sagt upp og að óbreyttu tekur ráðuneytið innan skamms yfir þær skyldur sem leiða af starfsemi hjúkrunarheimilisins Hamra.“ sagði Haraldur Sverrisson.