Af hverju sofum við?
Mikið hefur verið rætt um svefn og mikilvægi hans á síðustu misserum og ekki hvað síst í tengslum við tilfærslu klukkunnar.
Vissir þú til dæmis að nægur svefn styrkir ónæmiskerfið og gerir okkur betur í stakk búin til að mæta alls kyns umgangspestum? Að rannsóknir hafa einnig staðfest samhengi milli of lítils svefns og aukinnar hættu á of háum blóðþrýstingi, þunglyndi, offitu, sykursýki, heilablóðföllum og hjartaáföllum?
Í bókinni Why we sleep eftir dr. Matthew Walker kemur einnig fram að nægur og góður svefn bætir námsgetu, rökhugsun og minni auk þess að gefa okkur betri stjórn yfir tilfinningum og matarlyst.
Svefnleysi skerðir lífsgæði
Við þekkjum það flest hversu erfitt það getur verið að komast í gegnum daginn eftir svefnausa nótt enda hefur sú iðja að svifta fólk svefni verið notuð sem pyntingaraðferð í gegnum aldirnar. Athygli okkar og einbeiting skerðist og við verðum pirruð, fyllumst orkuleysi og jafnvel vonleysi. Svefnleysi getur því haft mjög víðtæk áhrif á líðan okkar og hegðun og komið niður á starfi okkar, fjölskyldu- og félagslífi.
Hvað þarf að sofa mikið?
Svefnþörf er einstaklingsbundin en fullorðnir þurfa að sofa a.m.k. 7-8 klst á sólarhring en börn og ungmenni þurfa talsvert meiri svefn. Sem dæmi má nefna að frá 5 ára aldri og fram á unglingsár er svefnþörfin á bilinu 9-11 klst. og upp í 15,5 klst. hjá yngri börnum.
Góður svefn hægir á öldrun
Svefn veitir hvíld, endurnærir hug og líkama og endurnýjar orkuna sem gerir okkur kleift að takast á við dagsins gleði og amstur.
Á heimasíðu Svefnrannsóknarfélagsins kemur fram að vaxtarhormón myndast í djúpum svefni fyrri hluta nætur. Þessi hormón stýra vexti hjá börnum og unglingum en eru einnig mikilvæg þeim sem eldri eru þar sem þau hraða endurnýjun á frumum líkamans og geta þar af leiðandi hægt á öldrun.
Í hraða nútímasamfélagsins virðist gildi svefns því miður alltof oft vanmetið og viðhorf til svefns nokkuð brenglað. Í hugum margra virðist það tengt dugnaði og atorkusemi að sofa lítið og stærir fólk sig stundum af slíku á meðan það að sofa virðist frekar tengt leti og metnaðarleysi.
Þarna er búið að snúa málinu alveg á hvolf því nægur svefn er ein af grunnþörfum mannsins og einfaldlega lífsnauðsynlegur til að ná þeim árangri sem við viljum ná í lífinu.
Ólöf Kristín Sívertsen,
lýðheilsufræðingur og verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ