Fyrsta úthlutun úr Samfélags­sjóði Kaupfélags Kjalarnesþings

samfelagssjodur

Tíu fengu styrk í þessari fyrstu úthlutun Samfélagssjóðsins og má sjá fulltrúa þeirra hér að ofan ásamt stjórnarmönnum sjóðsins en stjórnin er skipuð þeim Stefáni Ómari Jónssyni, Birgi D. Sveinssyni, Svanlaugu Aðalsteinsdóttur, Sigríði Halldórsdóttur og Steindóri Hálfdánarsyni. 

Laugardaginn 2. febrúar fór fram fyrsta úthlutun úr samfélagssjóði KKÞ og var alls úthlutað 16 milljónum.
Sjóðurinn var stofnaður eftir félagsslit Kaupfélags Kjalarnesþings og er stofnfé sjóðsins 50 milljónir.
Hlutverk sjóðsins er að úthluta fjámunum til æskulýðs- og menningarmála, góðgerðar- og líknarmála og annarrar starfsemi til almenningsheilla á fyrrum félagssvæði KKÞ sem nær yfir Mosfellsbæ, Kjalarnes og Kjósarhrepp.

Kaupfélaginu slitið árið 2016
Kaupfélag Kjalarnesþings var stofnað um miðja síðustu öld og starfaði fyrstu árin að Fitjakoti á Kjalarnesi en lengst af, eða frá 1956, í Mosfellssveit.
Kaupfélagið sjálft hætti verslunarrekstri um 1997 og leigði verslunarhúsnæði sitt út eftir það meðal annars til Krónunnar og fleiri aðila. Félaginu var slitið í júlí árið 2016 og samfélagssjóðurinn stofnaður í lok árs 2017.
Alls sóttu 20 um styrk í þessari fyrstu úthlutun þar sem áhersla var lögð á æskulýðsmál og málefni eldri borgara. Tíu umsóknir fengu styrk, fimm var vísað á næstu úthlutun sem fer fram í vor og fimm uppfylltu ekki skilyrði úthlutunarreglna.

Fjármunir til grasrótarinnar
„Félagsmönnum kaupfélagsins ber að þakka fyrir þá skynsamlegu ákvörðun að slíta félaginu um mitt ár 2016,“ segir Stefán Ómar Jónsson formaður Samfélagssjóðs KKÞ. „Þá voru eignir félagsins seldar og þær peningalegu eignir sem eftir stóðu látnar renna inn í sjálfseignarstofnunina Samfélagssjóð KKÞ. Án þeirrar ákvörðunar værum við ekki að færa hluta fjármunanna aftur heim í hérað, til grasrótarinnar.
Þegar stjórn sjóðsins hefur lokið störfum og úthlutað því fé sem hún hefur fær til úthlutunar verður sjóðurinn lagður niður,“ segir Stefán Ómar.

Íbúðir fyrir 50+ á kaupfélagsreitnum
Við sama tilefni kom út Saga Kaupfélags Kjalarnesþings 1950–2017. Eitt af fyrstu verkefnum sjórnar sjóðsins var að fá Friðrik G. Olgeirsson sagnfræðing til að rita sögu félagsins.
Í dag er búið að rífa gamla kaupfélagið og sjoppuna sem stóðu við Bjarkarholt. Framkvæmdir eru hafnar við uppbyggingu á kaupfélagsreitnum og er gert ráð fyrir fjölbýlishúsum fyrir 50 ára og eldri.

Önnur úthlutun sjóðsins
Samfélagssjóðurinn auglýsir nú eftir umsóknum á sviði menningarstarfsemi og menningarmála. Hægt er að nálgast umóknareyðublöð á heimasíðu sjóðsins www.kaupo.is og er umsóknarfrestur til 17. mars.

————

Eftirtaldir hlutu styrk:

Björgunarsveitin Kyndill
Kr. 2.500.000
Vegna ýmis konar búnaðar sem nauðsynlegur er vegna þjálfunar og til uppbyggingar á tækjabúnaði. Búnaður sem nýtist einnig almennu starfi sveitarinnar enda hefur sveitin lagt kapp á öfluga uppbyggingu unglingastarfsins sem er mikilvægur liður í að þjálfa fullgilda björgunarsveitarmenn.

Félagsstarf aldraðra
Kr. 500.000
Til kaupa á húsgögnum og ýmis konar búnaði sem nauðsynlegur er félagsstarfinu á Eirhömrum og gagnast þeim fjölmörgu eldri borgurum sem þangað sækja þjónustu.

Félag aldraðra – FaMos
Kr. 1.500.000
Til endurnýjunar á tölvubúnaði félagsins, endurgerðar á heimasíðu og til að efla tölvuþekkingu félagsmanna. Til kaupa á skáktölvum og klukkum og almennt til að efla starfsemi Félags aldraðra í Mosfellsbæ og nágrenni.

Hestamannafélagið Hörður
Kr. 2.000.000
Til uppbyggingar á TREC hestaþrauta- og keppnisbraut á félagssvæði Harðar norðan Harðarbóls. TREC brautin nýtist öflugu unglingastarfi félagsins og einnig í samstarfi Harðar og Framhaldsskólans í Mosfellsbæ, en skólinn heldur úti kennslu á sérstöku hestakjörsviði.

Rauði krossinn í Mosfellsbæ
Kr. 1.000.000
Styrkurinn er veittur til æskulýðsstarfsemi með áherslu á námsaðstoð til grunnskólabarna, tungumála- og samfélagsþjónustu við börn innflytjenda.

Reykjadalur
Kr. 3.000.000
Styrkur veittur til uppbyggingar á gervigrassparkvelli á útivistarsvæði. Þar er rekin sumar- og helgardvalar­aðstaða fyrir fötluð börn og ungmenni.

Skátafélagið Mosverjar
Kr. 2.500.000
Vegna uppbyggingar á lóð skátafélagsins þar sem koma á upp aðstöðu til útieldunar, aðstöðu til að æfa tjöldun og fleira til kennslu ungra skáta.

Skólahljómsveit Mosfellsbæjar
Kr. 1.500.000
Styrkurinn er veittur til kaupa á einkennisfatnaði fyrir Skólahljómsveit Mosfellsbæjar. Sveitin hefur verið starfrækt frá árinu 1963.

Ungmennafélagið Afturelding
Kr. 1.000.000
Til endurnýjunar á húsgögnum og ýmis konar búnaði í fundaraðstöðu ungmennafélagsins sem staðsett er á vallarsvæðinu að Varmá.

Ungmennafélag Kjalnesinga
Kr. 500.000
Styrkurinn veittur til enduruppbyggingar almenns ungmennafélagsstarfs á Kjalarnesi. UMFK er í mikilli uppbyggingu og tekist hefur að lífga félagið við.