Ungu sveinarnir orðnir tvítugir og gefa út afmælisrit
Ungmennafélagið ungir sveinar, UMFUS, er 20 ára um þessar mundir. Í tilefni þess hafa þeir Hallur Birgisson og Jón Guðmundur Jónsson sett saman glæsilegt rit um sögu félagsins sem kemur út á aðalfundi UMFUS þann 29. desember.
„Afmælisritið er byggt á frásögnum formanna félagsskaparins í gegnum tíðina, tveir formenn eru fyrir hvert ár og þeir segja sína sögu. Þetta eru því alls 40 formenn sem hafa verið við völd frá upphafi. Við erum aðeins heimildaaflarar sem skrásetjum söguna,“ segir Hallur.
Þrír þrektímar í viku í 20 ár undir handleiðslu Ella Níelsar
„Þetta byrjaði árið 1998 í Toppformi að Varmá þar sem Elías Níelsson stýrði Karlaþreki og voru það þeir Sigurður Borgar og Halldór Jökull sem stofnuðu félagsskapinn UMFUS. Árið 2000 var komið gott form á þetta hjá okkur og farnar voru bæði vor og haust keppnisferðir. En síðan þá höfum við brallað ýmislegt saman bæði innanlands og erlendis. Í 20 ár hafa verið þrír þrektímar í viku og er gaman að segja frá því að Elli Níelsar er búinn að vera með hópinn frá upphafi,“ segir Jón Guðmundur og tekur fram að tímarnir eru opnir og allir velkomnir.
Allur ágóði til góðra málefna í heimabyggð
„Við höldum alltaf aðalfund í lok hvers árs þar sem nýir formenn eru kjörnir og árið gert upp. Við veitum þar viðurkenningar fyrir ýmis afrek ársins.
Við ætlum að gefa afmælisritið út á aðalfundinum í ár. Ritið verður selt og allur ágóði mun renna til góðs málefnis í Mosfellsbæ,“ segja þeir félagar að lokum en þess má geta að UMFUS hefur einnig staðið fyrir svokölluðum Kótilettukvöldum þar sem ágóðinn hefur verið gefinn til verðugra málefna í heimabyggð.