Ekki bara íþrótt
Núna rétt fyrir jólin ætti heilsupistill mögulega að fjalla um það sem flesta skiptir mestu máli um hátíðarnar – samveru, góðan mat, ró og frið, afslappað andrúmsloft. Gjafir skipta máli, en eftir að hafa flakkað á milli vinnustaða í desember til að ræða þetta, leyfi ég mér að fullyrða að við séum að breytast sem samfélag. Sí fleiri forgangsraða samveru ofar en gjöfum og gjafir eru að breytast frá því að vera stórar og dýrar yfir í að snúast að gera eitthvað skemmtilegt. Helst með þeim sem gefur gjöfina. Það finnst mér vera góð þróun. En ég ætla ekki að fjalla um þetta í dag.
Í þessum síðasta pistli ársins langar mig að skrifa um uppáhaldsíþróttina mína, fótbolta. Ég hef gaman af mörgum íþróttum, hef æft og prófað ýmsar íþróttir og á eftir að prófa fleiri. En það er eitthvað við fótboltann sem nær mér alltaf. Sama þótt ég reyni reglulega að sleppa af honum takinu. Ég spila reyndar ekki sjálfur fótbolta reglulega en leik mér við guttana mína og tek öðru hvoru þátt í skemmtilegum viðburðum og mótum. Síðasti viðburður var einmitt í síðustu viku þegar foreldrum og systkinum stráka í 7. flokki var boðið að vera með á æfingu þeirra og spila á móti þeim. Þetta var stórkostlega skemmtilegt og eitthvað sem mætti gera oftar. Tengir foreldra saman, eflir tengsl þeirra við krakkana sína og við þjálfara þeirra.
Fótbolti er miklu meira en bara íþrótt. Fótbolti opnar dyr alls staðar í heiminum. Hvert sem við förum er einhver sem hefur áhuga á fótbolta, það skapar samræðugrundvöll og hann hefur ekki minnkað síðan Ísland fór að gera sig gildandi á heimskortinu. 2019 verður ár Aftureldingar í fótboltanum, bæði karla- og kvennamegin. Við eignuðumst okkar fyrstu Íslandsmeistara í 11 manna bolta á þessu ári. Það var bara byrjunin!
Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 20. desember 2018