Umhverfið er okkar
„Umhverfið er okkar,“ stendur fremst á nokkrum trukkum sem keyra mörgum sinnum á dag í gegnum bæinn okkar með baggaðan úrgang á leið í urðun í Álfsnes. Í raun eru mun fleiri bílar sem leggja leið sína þangað en um 150 þúsund tonn af úrgangi verða urðuð í Álfsnesi í ár.
Eitt stykki skemmtiferðaskip af stærstu gerð sem leggst að bakkanum hér í Reykjavík, svona til að setja þessar risastærðir í samhengi. Um 80 þúsund tonn af úrgangi til viðbótar eru svo keyrð í Álfsnes til endurnýtingar, til dæmis í jarðgerð og landmótun.
Á síðustu árum hafa mikilvæg skref verið stigin til að draga úr urðun úrgangs frá höfuðborgarsvæðinu og við getum glaðst yfir því að Mosfellsbær hefur verið virkur þátttakandi í þeim öllum, í góðu samstarfi við SORPU: blátunna við hvert heimili fyrir allan pappír og pappa, plastsöfnun í poka í gráu tunnuna, grenndargámar fyrir gler. Unnið er að enn stærri áfanga með byggingu gas- og jarðgerðarstöðvar til að meðhöndla allan lífrænan hluta úr heimilissorpi og endurheimta úr honum bæði orku (metan) og næringarefni (jarðvegsbætir).
En betur má ef duga skal. Lykillinn felst fyrst og fremst í að draga úr myndun úrgangs: nota minna, nýta betur, henda minna.
Þar getum við öll lagt okkar lóð á vogarskálar, það þarf ekki að vera mikið eða flókið. Byrjum núna um hátíðirnar:
– Sneiðum framhjá óþörfum umbúðum. Notum fjölnota poka.
– Eldum passlega. Nýtum afgangana. Gleymum ekki fuglunum.
– Kaupum ekki drasl og óþarfa hluti. Gefum hluti sem endast. Gefum upplifun. Gefum af tímanum okkar.
Umhverfið er okkar, svo sannarlega. Pössum upp á það, saman.
Gleðileg jól!
Michele Rebora
Aðalmaður Vina Mosfellsbæjar í umhverfisnefnd.