Jákvætt fólk
Ég var umkringdur jákvæðu fólki um helgina. Fólki sem á það sameiginlegt að hafa áhuga á heilsuhreysti, hreyfingu, misalvarlegum keppnum og hressandi útiveru. Þegar svona hópur er saman myndast sterk og jákvæð orka. Orka sem maður hleður inn á kerfið og endist manni lengi. Við þurfum öll að passa upp á að fá svona orkuinnspýtingu reglulega, það gefur manni svo mikið.
Ég náði að vera í núinu nánast alla helgina, vissi lítið hvað var að gerast í heiminum. Var ekkert að skoða eða fylgjast með fréttum. Og það var líka orkugefandi. Fréttir eru í langflestum tilfellum neikvæðar og soga frekar frá manni orku en að bæta á tankinn. Örstutt rennsli yfir stærstu íslensku fréttamiðlana þegar þessi moli er skrifaður staðfestir það. Helst í fréttum er fjársvikamál, dreifing heróíns, 330 milljóna umframkostnaður, afsögn framvæmdastjóra, Hrunið og gíslataka á lestarstöð. Jákvæða frétt dagsins er að Megan og Harry eiga von á barni. Til hamingju með það, kæru hjón.
Helgin góða og sú jákvæða orka sem þar myndaðist fékk mig til að hugsa hvernig ég gæti búið til fleiri svona stundir og fækkað þeim dögum sem ég leyfi orkukrefjandi áreiti að ná til mín. Ég er með ýmsar hugmyndir í kollinum og stefni á að koma þeim í framkvæmd, fyrr en síðar. Lífið er of stutt fyrir neikvæðni og áhyggjur. Lykilatriði í svona ferli er að hafa eitthvað áhugavert fyrir stafni. Upplifa tilgang. Að það sem maður gerir skipti einhverju máli, fyrir sjálfan mann og aðra. Þá hefur maður ekki tíma í að lúslesa vefsíður og samfélagsmiðla og velta sér upp úr vandamálum sem maður hefur ekkert með að gera. Að lokum vil ég mæla með skriðsundsnámskeiði Dodda – þið finnið það á Facebook – ég nánast óskriðsyndur fyrir námskeiðið synti án erfiðleika mörg hundruð skriðsundmetra um helgina og blés varla úr nös.
Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 18. október 2018