Kæru Mosfellingar
Mig langar að þakka fyrir samstarfið á bæjarhátíðinni okkar, Í túninu heima, sem fram fór helgina 28.-30. ágúst. Hátíðin var einstaklega vel heppnuð og bænum okkar til mikils sóma.
Svona verkefni verður ekki unnið nema með því að allir hjálpist að. Það skiptir miklu máli að fá að borðinu fyrirtæki og félagasamtök og auðvitað íbúana sjálfa sem hafa svo sannarlega gert Í túninu heima að ómissandi skemmtun í sumarlok.
Hátíðin virðist fara stækkandi með árunum og sífellt fleiri gestir sækja Mosfellsbæ heim. Dagskráin endurspeglaði mannlífið í bænum sem er í senn fjölbreytt og skemmtilegt. Hún minnir okkur á hvað við erum rík af umhverfinu, náttúrunni og mannauðnum.
Heilsa og umhverfi
Eins og flestir vita er Mosfellsbær Heilsueflandi samfélag og hefur tekið forystu í að innleiða verkefnið ásamt Heilsuvin ehf. og Embætti landlæknis. Heilsuefling er víðtækt hugtak og tengist heilsu og líðan fólks og aðgengi þess að heilsusamlegum valmöguleikum. Við höfum tengt heilsu við næringu og hreyfingu og erum nú á öðru ári í innleiðingu verkefnisins.
Til að minna á þessar áherslur í daglega lífinu ætlar Mosfellsbær og Heilsuvin ehf. að gefa fjölnota innkaupapoka inn á hvert heimili í Mosfellsbæ. Markmið með dreifingu pokanna er meðal annars að stuðla að minni notkun plasts í umhverfinu og að hafa þannig jákvæð áhrif á náttúruna og heilsu manna og dýra.
Ég vona að þetta framtak falli í jákvæðan jarðveg og efli okkur enn frekar til samstöðu og uppbyggingar í samfélaginu.
Iðkendur frjálsíþróttadeildar Aftureldingar munu dreifa pokunum dagana 18.-20. september næstkomandi.
Haraldur Sverrisson
bæjarstjóri Mosfellsbæjar
Greinin birtist í Mosfellingi 10. september 2015