Hestamennt í nýjar hendur
„Já, ég er að fara flytja til Frakklands, við fjölskyldan ætlum að skipta gjörsamlega um umhverfi, þjálfa hross og takast á við ný ævintýri. Við munum setjast að á búgarði sem er 150 km suðvestur af París,“ segir Berglind Inga Árnadóttir sem rekið hefur reiðskólann sinn í 24 ár.
„Við munum taka hluta af hrossaræktuninni okkar með út en líka vinna með hesta sem eru fyrir á búgarðinum. Íslenski hesturinn er að verða vinsælli úti í Frakklandi en er þó kominn frekar stutt miðað við nágrannaþjóðirnar Þýskaland og Danmörku.“
Blendnar tilfinningar
„Okkur þykir þetta mjög spennandi tækifæri en auðvitað eru tilfinningarnar blendnar. Fredrica Fagerlund og maðurinn hennar eru búin að kaupa fyrirtækið og hesthúsið okkar líka þannig að þau yfirtaka nánast líf okkar hérna í Mosó. Þau munu sjá um reiðskólann og starfið fyrir fatlaða áfram. Við erum mjög þakklát fyrir það enda búið að taka mörg ár að byggja þetta upp og við höfðum pínu áhyggjur á tímabili hvernig þetta færi.
Það verður erfitt að sleppa höndunum af starfinu hér hjá hestamannafélaginu enda mjög gefandi. Við ætlum að stökkva út í djúpu laugina.“ Með Berglindi fara eiginmaður hennar, Elías Þórhallsson, og sonur þeirra Rökkvi Dan.
Starfið heldur áfram samkvæmt áætlun
Fredrica tekur við fyrirtækinu Hestamennt og öllu sem því tengist. Fredrica hefur búið á Íslandi í níu ár og verið með annan fótinn í Mosfellsbæ lengi.
Hún rak tamningastöð í nokkur ár og mun halda því áfram en hún tók sér smá frí í kringum fæðingu frumburðar síns sem brátt verður eins árs.
„Þetta leggst mjög vel í mig og starfið með fötluðum hefst samkvæmt áætlun nú í haust,“ segir Fredrica en upplýsingar um starfið verður að finna á www.hordur.is.
Kúrekapartí með frjálsum framlögum
Tvíburabræðurnir Guðmundur og Guðbjörn Pálssynir héldu í haust stórt og mikið kúrekapartí í Reiðhöllinni. Þeir fögnuðu sameiginlegu 50 ára afmæli og tóku við frjálsum framlögum til styrktar fræðslunefnd fatlaðra.
„Þetta var svakalega gott partí, Hebbi frændi mætti og tók lagið og allir voru í þvílíkum fíling,“ segja þeir bræður í kór. Þeir afhentu við sama tilefni 200 þúsund krónur sem söfnuðust í afmælinu og eflaust kemur styrkurinn sér vel í starfinu sem fram undan er.