Myndavélin hennar mömmu hafði áhrif
Ólína Kristín Margeirsdóttir ljósmyndari opnaði ljósmyndastofu í Mosfellsbæ árið 2009. Ólína byrjaði ung að árum að taka myndir og hafa áhugamál hennar í gegnum tíðina ávallt verið tengd ljósmyndun. Það kom því fáum á óvart er hún fór að læra að verða ljósmyndari og í framhaldi opnaði hún sína eigin ljósmyndastofu, Myndo.is
Ólína segir að í starfi sínu reyni mikið á þolinmæði og tíma því allt felist í biðinni eftir að fanga rétta augnablikið.
Ólína Kristín er fædd í Grindavík 21. desember 1970. Foreldrar hennar eru þau Guðlaug R. Jónsdóttir húsmóðir og Margeir Á. Jónsson vörubílstjóri. Ólína á tvo bræður, Jón Gunnar f. 1968 og Árna Valberg f. 1982.
Fór með afa í sunnudagaskólann
„Ég er alin upp í Grindavík og það var gott að alast upp þar. Það var mikið af krökkum í hverfinu og við lékum okkur öll saman úti í leikjum á kvöldin.
Ég man enn þær stundir þegar ég labbaði yfir til ömmu og afa sem bjuggu ekki langt frá og fékk að fara með afa í sunnudagaskólann. Afi var sóknarprestur í Grindarvíkurkirkju í hartnær 40 ár og ég fékk að aðstoða í kirkjunni, það þótti mér spennandi.“
Sótti rollurnar með pabba
„Ég fékk oft að fara með pabba í bíltúr á vörubílnum og það var sérstaklega gaman á haustin því þá fékk maður að fara með honum að sækja rollurnar sem voru á leið í sláturhúsið. Þá notaði maður tækifærið og fékk að klappa þeim í leiðinni.
Ég sótti ekki mikið á bryggjuna en mamma var oft út í bílskúr að skera utan af netum og setja net á pípur og maður hjálpaði til við það þótt maður hafi ekki verið hár í loftinu.
Ég byrjaði ung að vinna, ætli ég hafi ekki verið 9 ára þegar ég byrjaði með lítinn strák í vist. Svo var það bæjarvinnan, maður var að sópa og tína rusl í bænum og í fjörunni. Þegar ég varð aðeins eldri fékk ég að fara að reyta arfa og slá grasið í kirkjugarðinum, svaka uppgrip,“ segir Ólína og brosir.
Vindáshlíð hápunkturinn
„Á sumrin fór ég á ýmis námskeið eins og leikja- og fótboltanámskeið en strax eftir fermingu fór ég til Frakklands í mánuð að passa hjá frænda mínum. Þegar heim var komið tók humarvinnan við og svo lá leiðin beint í frystihúsið.
Sumarið fyrir 10. bekk fékk ég að fara til Englands í enskuskóla í mánuð. Eftir það starfaði ég á Sjómannastofunni Vör bæði í eldhúsinu og við afgreiðslu.
Á hverju sumri fór ég í Vindáshlíð í viku eða frá 9 -14 ára aldurs og eitt árið fékk ég að vera þar í tvær vikur. Þetta fannst mér vera hápunkturinn á sumrinu.“
Lærði að standa á eigin fótum
„Eftir útskrift úr Grunnskóla Grindavíkur lá leið mín í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi og ég leigði hjá frú Bjarnfríði sem átti heima rétt hjá skólanum. Þetta voru góð og skemmtileg ár og þarna lærði ég að standa á eigin fótum.“
Ólína kynntist eiginmanni sínum, Haraldi V. Haraldssyni, vélfræðingi og rennismið, sumarið 1989. Þau giftu sig 27. júní 1992 og eiga saman þrjú börn. Margeir Alex f. 1993 rennismið og sjómann, Jón Árna f. 1996 bakara sem býr í Sviss og Elísabetu Tinnu f. 2003 nema og dansara.
„Þegar við Halli vorum að kynnast þá var ég á leið í Iðnskólann í Reykjavík að læra tækniteiknun. Eftir útskrift fór ég að vinna á flugvellinum í Keflavík og hjá Hans Petersen í Kringlunni við framköllun.
Við bjuggum í Hafnarfirði á þessum tíma en fluttum svo í Hamraborgina í Kópavogi rétt áður en við eignuðumst okkar fyrsta barn.“
Lá best við að kaupa hér
„Eftir þrjú ár í Kópavoginum ákváðum við að flytja í Mosfellsbæinn. Þetta var árið 1996, en þá vorum við hjónin búin að kaupa húsnæði í Flugumýri undir fyrirtæki okkar, Vélsmiðjuna Svein, sem við stofnuðum 1993, svo það lá best við að kaupa hér.
Við keyptum í Dvergholti en byggðum svo í Hrafnshöfðanum. Á meðan við vorum að byggja þá bjuggum við í smá tíma á skrifstofu í Hlíðartúninu og í fellihýsinu okkar í þrjár vikur á tjaldsvæði Mosfellsbæjar. Við fluttum svo inn í apríl 2001.“
Fékk myndavél hjá mömmu
„Áhugamál mín hafa alltaf verið tengd ljósmyndun og byrjaði sá áhugi sjálfsagt með því að ég fékk að taka myndavélina hennar mömmu með í Vindáshlíð þegar ég var níu ára.
Ég var alltaf í ljósmyndaklúbbi í grunnskóla og fór í starfskynningu í 9. bekk á ljósmyndastofu í Reykjavík. Eins vann ég hjá Hans Petersen í nokkur ár og þá jókst áhuginn á ljósmyndun þótt ég hafi ekki byrjað nám fyrir en árið 2005.
Ég fór síðar að starfa við framköllun hjá fyrirtækinu Jákvæð mynd sem var staðsett í bókabúðinni þar sem Bókasafn Mosfellsbæjar er nú til húsa. Með þeirri vinnu starfaði ég einnig í heimakynningum hjá Clean Trend og eins var ég að kynna fatnað frá Clamal.“
Lauk ljósmyndanámi árið 2007
„Ég lauk námi í grafískri miðlun haustið 2006 og vorið 2007 lauk ég svo ljósmyndanámi frá Iðnskólanum í Reykjavík. Ég byrjaði námssamning á Ljósmyndastofunni Ásmynd en flutti mig svo yfir á Barna- og fjölskylduljósmyndir.
Ég lauk sveinsprófi árið 2008 og ári seinna opnaði ég mína eigin ljósmyndastofu hér heima í Hrafnshöfðanum, Myndo.is. Ég tek að mér ýmis konar myndatökur. Síðan ég opnaði hef ég bætt við mig instaprent.is, poster.is og filmverk.is.
Reynir ekki oft á þolinmæðina í ljósmyndastarfinu? „Jú, það þarf mikið af þolimæði og góðan tíma til að fanga rétta augnablikið, svo mikið er víst. En svo er það „fullvissa augnabliksins“ þegar maður smellir af og veit um leið að rétta augnablikinu var náð, það er dásamleg tilfinning.“
Dansinum fylgir mikil vinna
„Samkvæmisdansar er í miklu uppáhaldi hjá mér og dóttir okkar Elísabet Tinna hefur stundað dans frá árinu 2009. Við foreldrarnir höfum fylgt henni og stutt hana í dansinum síðan þá.
Þessu fylgir mikil vinna, við keyrslu og keppnisferðir bæði hér heima og erlendis en er sannarlega þessi virði,“ segir Ólína brosandi að lokum er við kveðjumst.
Mosfellingurinn 28. júní 2018
Myndir og texti: Ruth Örnólfs