Óháð framboð sem býður fram í fyrsta sinn

vinirmoslisti

Vinir Mosfellsbæjar er óháð framboð sem býður fram í fyrsta sinn í vor. Framboðið á sér ekki rætur í hinum hefðbundnu stjórnmálaflokkum.
Framboðið sækir styrk sinn til einstaklinga úr ýmsum áttum með fjölbreytta þekkingu og bakgrunn, sem eiga það sameiginlegt að vilja efla hag bæjarins og allra íbúa hans.

Áhersla lögð á góða samvinnu
Heiðarleiki, þekking og lýðræði eru þau gildi sem framboð Vina Mosfellsbæjar mun byggja starf sitt á. Sérsök áhersla verður lögð á góða samvinnu við bæjarbúa og bæjarstarfsmenn.
Vinir Mosfellsbæjar ætla að auka og auðvelda aðkomu bæjarbúa með virku íbúalýðræði. Með opinni, gagnsærri og gagnvirkri stjórnsýslu geta Mosfellingar gert góðan bæ enn betri.

Fyrrum bæjarritari í fyrsta sæti
Stefán Ómar Jónsson, viðskiptalögfræðingur og fyrrverandi bæjarritari Mosfellsbæjar, mun leiða lista Vina Mosfellsbæjar. Í öðru sæti er Margrét Guðjónsdóttir lögmaður. Í þriðja sæti er Michele Rebora stjórnmálafræðingur og ráðgjafi í gæðastjórnun. Fjórða sæti skipar Vilhelmína Eva Vilhjálmsdóttir grafískur hönnuður og framkvæmdastjóri fimleikadeildar Aftureldingar.

Stefán Ómar Jónsson

Stefán Ómar Jónsson

Framboðslisti Vina Mosfellsbæjar
1. Stefán Ómar Jónsson
2. Margrét Guðjónsdóttir
3. Michele Rebora
4. Vilhelmína Eva Vilhjálmsd.
5. Olga Stefánsdóttir
6. Sigurður Eggert Halldóruson
7. Lilja Kjartansdóttir
8. Gestur Valur Svansson
9. Óskar Einarsson
10. Agnes Rut Árnadóttir
11. Pálmi Jónsson
12. Rúnar Breiðfjörð Ásgeirsson
13. Björn Brynjar Steinarsson
14. Sonja Ósk Gunnarsdóttir
15. Úlfhildur Geirsdóttir
16. Björn Óskar Björgvinsson
17. Valgerður Sævarsdóttir
18. Valdimar Leó Friðriksson

Styrkur einstaklinga úr ýmsum áttum
Stefán Ómar Jónsson leiðir listann fyrir sveitarstjórnarkosningarnar þann 26. maí. „Framboðið sækir styrk sinn til einstaklinga úr ýmsum áttum með fjölbreytta þekkingu og bakgrunn, sem eiga það sameiginlegt að vilja efla hag bæjarins og allra íbúa hans.
Vinir Mosfellsbæjar hvetja alla unga sem aldna til þess að nýta kosningarétt sinn, þennan mikilvæga lýðræðislega rétt sem við þurfum að viðhalda og rækta.
Við höfum einlægan áhuga á vandaðri og réttsýnni stjórnsýslu. Í nútímasamfélagið þar sem tölvutækni og róbótavæðing, fjórða iðnbyltinginn, ræður ríkjum er mikilvægt að stjórnsýslan sé ekki aðeins vönduð og rétt, heldur að hún sé rafræn og gagnvirk. Á þessum málum hef ég mikla þekkingu og hana mun ég sem bæjarfulltrúi nýta þannig að íbúar fái notið fremstu tækni.
Ég leiði Vini Mosfellsbæjar til þessara bæjarstjórnarkosninga af heilindum og með gleði í hjarta.“

Margrét Guðjónsdóttir

Margrét Guðjónsdóttir

Með viðamikla þekkingu
„Vinir Mosfellsbæjar hafa það að markmiði að koma að uppbyggingu og þjónustu við Mosfellinga, með viðamikla þekkingu að vopni,“ segir Margrét Guðjónsdóttir.
„Við höfum einlægan áhuga á velferðarmálum almennt, málefnum fatlaðra svo og málefnum eldri borgara. Í eldri borgurum býr fjársjóður reynslu og þekkingar sem við getum og eigum að nýta okkur. Í skipulagsmálum þurfum við að vanda okkur sérstaklega til að tapa ekki þeim sjarma að vera sveit í borg. Á þessum málefnum hef ég mikla þekkingu og hana mun ég nýta.
Ef við stöndum saman og ræðum málin, leyfum öllum þeim mannauði sem Mosfellsbær býr yfir að njóta sín og koma að málum, þá getum við gert bæinn okkar enn betri fyrir íbúa hans, jafnt unga sem aldna.“